„Við erum nokkuð brattir. Við enduðum á 200 kílómetrum á hjóli og náðum að jafna okkur vel á því og borða sæmilega vel. Við enduðum þetta í rauninni brosandi út í eitt,“ segir Sigurjón Ernir Sturluson eftir að hafa skilað 350 kílómetrum af erfiði ásamt Halldóri Ragnari Guðjónssyni og Bergi Vilhjálmssyni slökkviliðsmanni, sem kláraði síðustu kílómetrana í vinnugallanum.
Kláruðu þeir félagar 350 kílómetra af róðri, skíðavél og hjólreiðum í húsnæði Ultraform í Grafarholti á 23 og tæpri hálfri klukkustund, til styrktar Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein.
Heilu skokkhóparnir og vaktir slökkviliðsins mættu til þess að styðja við félagana og seldist varningur Krafts vel, að sögn Þórunnar Hildu Jónasdóttur, markaðs- og kynningarfulltrúa Krafts.
„Þeir voru duglegir að passa upp á hvern annan. Þetta var aldrei í hættu, enda ákveðnir menn. Þeir hefðu frekar drepist á hjólinu en að hætta,“ segir hún létt í bragði.
Spurður hvort staðan hefði á einhverjum tímapunkti orðið tvísýn svarar Sigurjón neitandi.
„En nóttin var erfið. Við vorum að róa í alla nótt sem tók svolítið í,“ segir Sigurjón. Strangar æfingar fram að söfnunarátakinu komu þá ekki að sök.
„Við erum allir í nokkuð góðu standi en tökum 100 km hjólaæfingu, róðraæfingar og allskonar. Við tókum alveg langar æfingar fyrir þetta og það er gaman að við hefðum náð allir að klára.“
Margir mættu til þess að hvetja kappana áfram og áheitasöfnun stendur yfir fram á mánudag.
Bankaupplýsingar hjá Krafti: kennitala: 571199-3009, bankanúmer: 327-26-112233, Aur: @kraftur