Mótmæltu er gestir gengu inn í Hörpu

Mótmælt var fyrir utan Hörpu á meðan sýningargestir gengu inn, …
Mótmælt var fyrir utan Hörpu á meðan sýningargestir gengu inn, til þess að sjá Madama Butterfly. Ljósmynd/Aðsend

Hópur fólks kom saman og mótmælti rasisma í sýningu Madama Butterfly fyrir utan Hörpu í dag, á meðan sýningargestir gengu inn til þess að sjá verkið. Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri var á staðnum og spurðu mótmælendur hana krefjandi spurninga.

Upp­setn­ing Íslensku óper­unn­ar á verk­inu Madama Butterfly eft­ir Giacomo Pucc­ini, hef­ur fengið tölu­verða gagn­rýni og hafa aðstand­end­ur verks­ins verið sakaðir um að sýna svokallað „yellow face“, en þá er notaður farði og gervi í þeim til­gangi gera hvítt fólk „asísk­t“ í út­liti, oft á ýkt­an hátt.

Ljósmynd/Aðsend

„Eins og slæmur fyrrverandi maki“

Mbl.is ræddi við Rebeccu Hidalgo, Chaiwe Sól og Evu Björk, sem voru viðstaddar mótmælin og standa jafnframt á bakvið aktívistahópinn R.E.C. Arts Reykjavík. Þær telja Íslensku óperuna ekki hafa gengist við mistökunum.

„Þetta voru friðsamleg mótmæli. Við komum því á framfæri að aðstandendur sýningarinnar þurfi að taka ábyrgð á mistökunum og þurfi að skilja að sagan er eins og slæmur fyrrverandi maki. Þú vilt ekki hengja upp myndir af fyrrverandi makanum sem beitti þig ofbeldi,“ segir Elva.

Hluti leikmyndarinnar og umþrætt útlit sem hefur sætt gagnrýni.
Hluti leikmyndarinnar og umþrætt útlit sem hefur sætt gagnrýni.

Spurðu óperustjóra krefjandi spurninga

„Við tökum undir það með Óperunni að list á að vera falleg. En á þeim tímum sem við lifum  núna er mikilvægt að hafa í huga tilfinningar fólks. Það er enn hægt að segja söguna og hafa tónlistina án þess að hin listræna hlið einkennist af rasisma,“ segir hún.

Daniel Byung-chan Roh, einn þeirra sem stóðu á bakvið mótmælin, ræddi við Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, óperustjóra Íslensku óperunnar, fyrir utan Hörpu í dag. 

„Eins og við var að búast fór hún í mikla vörn. En vildi koma því á framfæri að óperan myndi taka á málinu. Síðan komu fleiri inn í umræðurnar og spurðu hana krefjandi spurninga,“ segir Rebecca. 

Spyr hvaða breytingar verði gerðar

Hún vekur athygli á því að Íslenska óperan hafi ekki sagt með skýrum hætti hvaða breytingar yrðu gerðar á sýningunni, ef einhverjar.

„Íslenska óperan segist ætla að gera breytingar á sýningunni en á sama tíma eru áhorfendur að ganga inn á sýninguna, á meðan mótmælin standa yfir. Hvers vegna fresta þau ekki sýningunni og gefa sér tíma til þess að breyta henni? Hvers vegna að breyta henni smátt og smátt? Það mun ekki breyta neinu. Fleiri og fleiri miðar eru að seljast og þau munu græða sífellt meira á þessum hræðilegu og rasísku aðstæðum.“

Hópurinn bindur vonir við að raunverulegar breytingar verði gerðar á sýningunni, sem er talin sýna hættulegar rasískar staðalímyndir, og að óperan beri ábyrgð á mistökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert