Stutt er í að jarðvegsverktaki skili af sér fyrstu götum og lóðum í nýju hverfi sem Garðabær skipuleggur á Hnoðraholti, en um er að ræða fyrstu svæðin í hverfi þar sem að lokum verða byggðar á bilinu 1.700 til 2.000 íbúðir. Stór hluti efnisins sem verður til við jarðvegsvinnuna hefur verið endurnýttur innan svæðisins, en einnig hefur hluti hans verið notaður í nýjan minningargarð sem nú er unnið að uppi á Rjúpnahæð, fyrir ofan Vífilstaðavatn.
Sigurður Arnar Sigurðsson er verkefnastjóri jarðvinnu hjá verktakafyrirtækinu Snóki sem er verktaki á stærstum hluta þess svæðis þar sem nú er unnið í Hnoðraholti. Hann segir í samtali við mbl.is að framkvæmdir hafi gengið mjög vel frá því að þær hófust um miðjan maí í fyrra. „Við erum að skila fyrstu lóðunum í júní og þá verða þær afhendar til Garðabæjar,“ segir hann. Þar er um að ræða aðra af aðalbrautunum sem munu liggja í gegnum hið nýja hverfi, götuna Vorbraut og svo íbúðagötuna Ýlisholt, en hún er í nokkrum botnlöngum.
Til viðbótar við það verkefni sem Snókur vinnur að er annar verktaki í jarðvegsvinnu við götu sem kallast Þorraholt, en hún verður næst gatnamótum Arnarnesvegar og Reykjanesbrautar, við mislæga hringtorgið.
Verkefnum Snóks verður þó ekki lokið í júní því í september er áætlað að skila af sér götunum Depluholti og Útholti, sem ná í átt að núverandi byggð í Þorrasölum í Kópavogi. Eins og mbl.is fjallaði um í fyrra vekur það athygli að Vorbraut mun tengjast inn í Þorrasali og þar með tengja þessi tvö hverfi saman, sem eru í sitt hvoru sveitarfélaginu, án þess að fara þurfi í gegnum aðalbrautir eins og oft hefur verið venjan á höfuðborgarsvæðinu hingað til.
Sigurður segir fyrirtækið sjá um alla jarðvinnu í umræddum verkum, frá allri veitulagningu að því að gera götuna þannig að hún sé tilbúin undir malbikun. Þeir sem hafa verið á ferð upp með Arnarnesvegi hafa eflaust tekið eftir framkvæmdum sem þar eiga sér stað við hlið vegarins og segir Sigurður að þar sé um að ræða hluta af fráveitu fyrir hverfið sem Snókur sjái einnig um.
Þessi vinna sem nú stendur yfir er hluti af svæði sem kallast Hnoðraholt norður, en í heildina nær svæðið þó yfir allt holtið og niður í Vetrarmýri, þar sem þegar hefur verið reist samnefnt íþróttahús, og að Vífilstöðum. Á því svæði sem Snókur vinnur nú á er gert ráð fyrir um 200 íbúðum í formi minni fjölbýlishúsa, einbýlishúsa og raðhúsa, auk þess sem reisa á leikskóla og búsetukjarna fyrir fatlaða efst á hæðinni. Á hinu svæðinu sem er nær Reykjanesbrautinni verða svo að hluta atvinnulóðir, en einnig nokkur stærri fjölbýlishús með samtals um 200 íbúðum.
Í suðurhlíðum holtsins, á svæði sem hefur verið nefnt Hnoðraholt suður, hefur svo verið horft til þess að þar geti risið um 700 íbúðir og í Vetrarmýri að það verði á milli 600-800 íbúðir, auk fleiri íþróttamannvirkja.
Umtalsverðir efnisflutningar fylgja ávallt verkum sem þessum og segir Sigurður að í það heila séu þetta um 70-80 þúsund rúmmetrar sem séu brottfluttir. Þá eru 40-50 þúsund rúmmetrar aðfluttir og 20-30 þúsund rúmmetrar nýttir á staðnum. Til að setja þetta í samhengi þá tekur hefðbundinn vörubíll um 15-16 rúmmetra. Brottflutningurinn einn og sér er um 5.000 slíkar ferðir.
Sigurður segir að við skipulag verksins hafi hins vegar mikið verið hugsað út í endurnýtingu efnis og að stytta ferðir. Þannig hafi verið hægt að endurnýta stóran hluta efnis og flytja á milli svæða. Talsverður hæðarmunur sé skiljanlega á hæð sem þessari og því hafi á sumum stöðum þurft að taka efni, en á öðrum stöðum vantað efni.
Þá hafi á sama tíma vantað efni í nýjan minningargarð fyrir Tré lífsins á Rjúpnahæð, sem er fyrir ofan Vífilstaðavatn. Segir Sigurður að þar með hafi tekist að fara með umtalsvert mikið af efni sem annars hefði þurft að keyra langt út fyrir svæðið og jafnvel henda því. Segir Sigurður að þessi hugsun um að nýta efnið betur og fara styttri vegalengdir þurfi að vera ríkjandi bæði hjá verktökum, en ekki síst verkkaupum. „Það er gott að hugsa út í þessi mál og stíga inn í árið 2023,“ segir hann og bætir við að jafnvel geti verkkaupar gert kröfu um að verktakar vinni efni á staðnum í stað þess að sækja það annað.
Í heildina hafa á bilinu 10-15 starfsmenn frá Snóki verið að vinnu á svæðinu frá því í maí í fyrra og þrátt fyrir leiðinlega tíð í janúar og byrjun febrúar segir Sigurður að verkið hafi gengið mjög vel og að þeir séu á góðum tíma og að öll tímaplön séu að standast.