Tvær stórfelldar líkamsárásir voru framdar í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi og í nótt. Önnur átti sér stað á Petersen svítunni rétt fyrir klukkan tíu og hin fyrir utan skemmtistaðinn Paloma um fimmleytið.
Ekkert bendir til þess að árásirnar séu tengdar, að sögn Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns. Þá voru engin vopn notuð.
„Högg og spörk dundu á manninum á Petersen. Hann vildi meina að nokkrir hefðu ráðist á sig en það er í rannsókn. Hann fór sjálfur á Læknavaktina,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.
Fyrir utan Paloma hafði maður skallað, kýlt og rotað annan mann. Maðurinn afþakkaði þó aðstoð sjúkraliðs og leitaði sér læknisaðstoðar á eigin vegum, að sögn Skúla.
Árásarmennirnir eru ungir karlmenn. Segir Skúli ekkert benda til þess er að árásarmenn og fórnarlömb hafi þekkst.
Tilkynnt var um þriðju árásina í nótt, en sú átti sér stað í heimahúsi í Hlíðunum. Skúli segir það vera til rannsóknar hvort um líkamsárás hafi verið að ræða.
„Það er til skoðunar hvort hann hafi fallið eða verið veittir áverkar. Það er ekki víst að það hafi verið líkamsárás.“