Framkvæmdir við nýja skrifstofubyggingu Alþingis í Tjarnargötu 9, Alþingisreit, eru í fullum gangi. Þær hafa gengið vel þrátt fyrir ýmsar áskoranir, m.a. vegna heimsfaraldurs, að sögn Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis. Samið var við lægstbjóðanda, ÞG verktaka, að byggja húsið.
Fyrsta skóflustunga að nýbyggingunni var tekin 4. febrúar 2020. Þá voru verklok áætluð í febrúar 2023. Síðar var verklokum frestað fram á vormánuði. Gerð var ný áætlun um afhendingartíma hússins sem hnikar dagsetningum að einhverju marki, að sögn Rögnu. Er nú stefnt að afhendingu á húsinu innandyra í áföngum í apríl – júlí nk. en útlit fyrir að lokafrágangur utandyra dragist fram á haustið.
Ragna segir að áætlanir hafi ávallt gengið út frá því að unnt verði að hefja starfsemi í húsinu fyrir byrjun næsta löggjafarþings í september og séu vonir bundnar við að þær standist.
Byggingunni er ætlað að vera þjónustukjarni sem muni sameina á einum stað alla starfsemi nefndasviðs, skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstöðu þingflokka o.s.frv.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 9. mars.