Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð snemma í morgun 1,1 klómetra austur af Goðabungu undir Mýrdalsjökli. Þá varð skjálfti af stærðinni 2 norðaustan af Goðabungu í nótt.
Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir um að ræða framhald af virkni sem hófst í fyrradag.
„Það hefur aðeins verið að aukast virknin síðustu mánuði en er enn þá alveg innan marka,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.
„Þessi aukna virkni þýðir að við fylgjumst, eins og ævinlega, mjög vel með allri skjálftavirkni í Mýrdalsjökli og erum með fleiri tæki til þess að fylgjast með landbreytingum. Við fylgjumst vel með bæði Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl, sem og ám í kringum jökulinn.“
Hún segir möguleikann á eldgosi ekki vera meiri en verið hefur.
„Hann er náttúrulega bara búinn að vera tilbúinn, miðað við söguna þá ætti að vera komið gos fyrir löngu síðan.“
Segja má að um eðlilega virkni sé að ræða sem gefur engu að síður tilefni til að fylgjast vel með, að sögn Sigríðar.