Marsmánuður hefur ekki mælst kaldari á höfuðborgarsvæðinu síðan 1998 og er því um að ræða köldustu byrjun á mars á þessari öld. Þetta staðfestir veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.
„Þetta er það kaldasta sem hefur mælst við stöð veðurstofunnar í Reykjavík í mars síðan 1998.“
Veðurfræðingurinn segir að miðað við spánna verði hitastig töluvert undir frostmarki út vikuna en að það hlýni örlítið með tímanum og á föstudaginn muni hiti vera við frostmark. Hann segir að um annað kuldakast sé að ræða slíkt og það sem stóð yfir í desember í fyrra.
Hann bætir við að mikill kuldi hafi verið í nótt og frost hafi mest farið í 25,7 stig við Mývatn. Í mars árið 1998 varð frost mest 34,7 gráður á sama stað. Þá var nítján stiga frost á Akureyri í nótt. Hann segir kuldann í nótt útskýrast á því að það hafi verið heiðskírt og nánast logn sem eru kjöraðstæður fyrir mikinn kulda.
Hann segir núverandi kuldakast koma til vegna hæðar yfir Grænlandi þar sem vindurinn snýr réttsælis og vegna viðvarandi lægðarsvæðis við Noreg þar sem vindurinn snýst einnig réttsælis. Þar af leiðandi er norðanátt á milli þessara svæða sem dælir heimskautalofti til Íslands.
Hann bætir við að ómögulegt sé að segja til um horfur í næstu viku.