Eina vonin að hjálpin komi fljótt!

​Teikning af því er Þormóður leggur úr höfn á Bíldudal …
​Teikning af því er Þormóður leggur úr höfn á Bíldudal síðla nætur þriðjudaginn 16. febrúar 1943. Myndin er byggð á lýsingum sem fram koma í sjódómsbókum og blaðagreinum. ​Teikning/Jóhann Jóhannsson

„Þau átakanlegu sorgartíðindi hefir Morgunblaðið að flytja, að M.s. „Þormóður“ frá Bíldudal hefir farist og með honum 30 manns, 7 skipsmenn og 23 farþegar. Meðal farþega voru 10 konur, eitt barn og tveir prestar.“

Með þessum orðum hófst frétt á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 20. febrúar 1943. Forsíðan var að mestu helguð slysinu en á þessum árum var þar alla jafna aðeins að finna smáauglýsingar. Í seinni tíma heimildum eru hinir látnu sagðir vera 31 en ekki 30.

Klukkan 22.35 miðvikudagskvöldið 17. febrúar barst Slysavarnafjelagi Íslands svohljóðandi skeyti frá skipstjóranum á Þormóði: „Erum djúpt út af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin er, að hjálpin komi fljótt!“

Framkvæmdastjóri Slysavarnafjelagsins gerði vitaskuld strax allar hugsanlegar ráðstafanir, að því er fram kom í Morgunblaðinu. En vegna fárviðris þá um kvöldið, var ekki viðlit að senda skip út til hjálpar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði Þormóður sennilega farist strax um kvöldið. „Hefir fundist brak úr skipinu skamt frá Garðskaga og einnig eitt lík,“ sagði í frétt blaðsins.

​Forsíða Morgunblaðsins laugardaginn 20. febrúar 1943 var helguð slysinu.
​Forsíða Morgunblaðsins laugardaginn 20. febrúar 1943 var helguð slysinu.


Þormóður var leigður skipaaútgerð ríkisins, til strandflutninga. Þessa síðustu ferð fór skipið til hafnar við Húnafjörð og sótti þangað rúmlega eitt tonn af kjöti, sem flytja átti til Reykjavíkur. Á leiðinni kom skipið við á tveimur höfnum á Vestfjörðum, Bíldudal og Patreksfirði.

M.s. Þormóður (áður Alden) var 101 tonn, byggt 1931. Fiskveiðafjelagið Njáll í Bíldudal keypti skipið 1942. Var þá nýbúið að setja í það 240 ha. díselvél, svo og nýja hjálparvél. Skipið var útbúið öllum fullkomnustu tækjum, svo sem dýptarmæli, talstöð o.fl. og hafði skoðunarvottorð til millilandasiglinga. Þetta var önnur ferð skipsins eftir gagngera viðgerð eða klössun.

Öllum leið vel

Loftskeytastöð gerði tilraun til að hafa samband við Þormóð snemma á miðvikudeginum, að beiðni skrifstofu Gísla Jónssonar, alþingismanns og eiganda skipsins, vegna þess að vonskuveður hafði verið um nóttina. Svar barst þó ekki fyrr en um kl. 19 um kvöldið og þá kvaðst skipstjórinn hafa slegið Faxabugt en gat ekki sagt til um hvenær skipið væri væntanlegt til hafnar.

Um svipað leyti og svarskeytið kom frá skipstjóranum bárust tvö skeyti frá farþegum til ættingja í Reykjavík og var í þeim sagt, að öllum liði vel og skipið væri væntanlegt næsta morgun. Í framhaldinu var björgunarskipið Sæbjörg beðið um að vera í sambandi við Þormóð. Það síðasta sem heyrðist frá skipinu var hins vegar fyrrnefnt skeyti frá skipstjóranum kl. 22.35 að kvöldi miðvikudags, þar sem hann bað um hjálp í skyndi.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert