„Svolítið súrrealískt,“ svarar Daníel Máni Konráðsson, gítarleikari og lagahöfundur, spurður hvernig tilfinning það sé að vera genginn til liðs við hitt goðsagnakennda fjölþjóðlega dauðamálmband Aborted. Það gerði hann á síðasta ári.
„Ekki síst vegna þess að ég talaði eiginlega ekki um þetta við neinn fyrr en allt var í höfn. Þetta er svolítið steikt en fyrst og síðast gaman. Samstarf okkar varð fljótt mjög náttúrulegt. Þetta eru frábærir músíkantar og alltaf tilhlökkunarefni að fara á svið með þeim. Maður veit að eitthvað magnað er að fara að gerast.“
Fyrsta verkefni Mána með Aborted var að koma fram á nokkrum tónlistarhátíðum í Evrópu síðasta sumar. Í þeirri lotu var fyrsta lagið sem Máni semur fyrir Aborted, Infinite Terror, einnig hljóðritað og myndband tekið upp sem áhugasamir geta flett upp á YouTube. Hann fór líka í fjögurra vikna tónleikaferð með Aborted um Bandaríkin síðasta haust, ásamt dauðkjarnabandinu Lorna Shore, sem hann segir hafa verið mikla veislu. „Þetta voru svona 1.000 til 2.000 manna staðir, alls staðar uppselt og stemningin gríðarleg. Bandaríkjamenn eru harðari en við hérna í Evrópu; mæta fyrr á staðinn og eru komnir til að skemmta sér. Það er mjög gaman að spila fyrir þá.“
Aborted var stofnað í Belgíu en á sér eiginlega ekkert varnarþing lengur. „Þetta er hálfgert hirðingjaband í dag. Sven er eini Belginn en auk mín eru þarna bassaleikari frá Ítalíu, Stefano Franceschini, og gítarleikari og trommari frá Bandaríkjunum, Ian Jekelis og Ken Bedene. Við búum allir í okkar heimalöndum en komum saman þegar til stendur að túra eða taka upp nýtt efni. Þess á milli vinnum við bara saman í fjarvinnu. Það er praktískt og gengur ágætlega.“
– Þannig að þú þarft ekki að flytja utan út af Aborted?
„Nei, ekki þannig lagað, en ég á samt frekar von á því að flytja til útlanda á einhverjum tímapunkti í framtíðinni.“
Næstu verkefni Aborted eru Bandaríkjatúr í apríl og svo kemur bandið fram á einhverjum sumarfestivölum. Í haust er skónum svo stefnt í hljóðver í Denver í Bandaríkjunum til að taka upp nýja plötu. Gert er ráð fyrir sex vikum, þar sem allir lausir hnútar verða hnýttir. „Ætli platan komi svo ekki út snemma á næsta ári,“ segir Máni.
– Blasir ekki við að Aborted komi til Íslands og haldi tónleika?
„Það hefur komið til tals að koma til Íslands en ekkert orðið úr eða planað enn. Það kemur að því einn daginn þegar stjörnurnar raðast þannig upp er ég nokkuð viss um.“
Nánar er rætt við Daníel Mána í Sunnudagsblaði Morgublaðsins en hann starfar áfram með tveimur böndum hér heima, Ophidian I og Une Misère og er nú þungarokkari í fullu starfi.