Grunur um fjóra stolna síma á Kaffibarnum

Maðurinn er grunaður um að hafa stolið fjórum símum á …
Maðurinn er grunaður um að hafa stolið fjórum símum á Kaffibarnum í Reykjavík. mbl.is/Ari

Karlmaður er grunaður um að hafa stolið fjórum símum á Kaffibarnum í miðbæ Reykjavíkur í gær.

Lögreglu barst tilkynning í gær um aðila sem var að stela símum á skemmtistað í miðbænum. Einn maður var handtekinn í tengslum við málið en lögreglan fann aðeins einn síma á manninum.

„Þegar við erum að hafa afskipti af honum þá dettur einn síminn niður á jörðina,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Fjórir tilkynntu um horfna síma

„Það er í rannsókn hvort það hafi hugsanlega verið fleiri á ferðinni,“ bætir hann við.

„Það eru fjórir sem tilkynna um hvarf á símum sínum þegar lögreglan kemur á staðinn. Maðurinn var með einn síma af þessum fjórum á sér.“

Maðurinn gisti í fangageymslu lögreglu í nótt og er málið nú til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert