Íbúar í grennd við Háteigskirkju urðu sumir varir við það þegar kirkjuklukkurnar hringdu í nótt. Sóknarprestur Háteigskirkju segir engar skýringar á því hvers vegna þær hafi farið í gang en klukkurnar verði skoðaðar á morgun.
„Okkur þykir afskaplega leitt að hafa valdið ónæði um miðja nótt og ég tala nú ekki um ef einhver hefur orðið óttasleginn um að eitthvað hefði gerst, en svo var alls ekki,“ segir séra Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur í Háteigskirkju, í samtali við mbl.is.
Hún segir að atvik sem þetta hafi aldrei komið fyrir áður.
„Þessar klukkur eru búnar að vera þarna í sextíu ár og ég hef verið prestur í kirkjunni í næstum þrjátíu ár og hef aldrei orðið vör við að klukkurnar fari í gang af sjálfu sér um miðja nótt. Þetta hefur aldrei komið fyrir áður og við vonum að þetta gerist ekki aftur.“
Klukkunum er stjórnað með rafbúnaði sem nú hefur verið tekinn úr sambandi. Rafvirkjar munu skoða klukkurnar á morgun.
„Þetta er einhver bilun í búnaði eftir því sem við best vitum,“ segir Helga.
Hún segir það hafa komið fyrir að klukkurnar fari ekki í gang þegar ýtt er á þar til gerðan takka. Þær hafi hins vegar aldrei farið í gang af sjálfu sér.
„Klukkurnar eru að minnsta kosti ekki yfirnáttúrulegar, ég held að það hljóti að vera skýringar á þessu sem hafa með rafmagn að gera,“ segir hún og hlær.
Spurð hvort margir hafi haft samband við kirkjuna vegna atviksins segir Helga svo ekki vera.
„Við erum í sambandi við Securitas og þau létu okkur vita af þessu og sennilega hefur einhver hringt í þá, en það hefur ekki verið neinn straumur af fólki eða neitt svoleiðis.
Sumum finnst óþægilegt að vakna upp við þetta um miðja nótt og tengja kannski klukknahljóm við einhvers konar viðvaranir, en við notum ekki kirkjuklukkur til annars en að kalla til helgra tíða.“