Skotmannsins enn leitað

Mynd úr safni. Mikill viðbúnaður lögreglu var í miðborginni í …
Mynd úr safni. Mikill viðbúnaður lögreglu var í miðborginni í kvöld út af málinu. mbl.is/Arnþór

Lögregla skorar á karlmann, sem hleypti af skoti á Dubliner í kvöld, að gefa sig fram. Sjónarvottar urðu varir við mikinn viðbúnað við staðinn í kjölfar skotárásarinnar en enginn særðist alvarlega. Mbl.is ræddi við Gunnar Rúnarsson, eiganda Gamla gauksins, sem kom á vettvang eftir átökin.

„Ég var þarna niður frá í kvöld. Ég tafðist á leiðinni, annars hefði ég líklega verið þarna á sama tíma og þetta gerðist. Þegar ég kem að þessu var lögreglan mætt. Við heyrum mismunandi hluti frá fólki úti á götu. Sumir segja að einhverju hafi verið hent þangað inn. Við sáum ekki neitt og vissum ekki neitt,“ segir Gunnar Rúnarsson, eigandi Gamla gauksins. 

Sögðu enga hættu vera á ferð

„Mikið lið lögreglu og sérsveitarinnar var mætt. Ég spurði hvort hætta væri á ferðinni en lögreglan tjáði mér að allt væri búið. Um sjö, áttaleytið voru þeir að tínast í burtu.“ 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu um klukkan 22.30 í kvöld þar sem greint var frá því að karlmaður hafi hleypt af skoti inni á Dubliner við Naustin í miðborg Reykjavíkur. Skotið hafnaði á vegg og flúði maðurinn vettvang.

Skotvopn fannst nærri skemmtistaðnum að sögn lögreglu en hún skorar á manninn að gefa sig fram, eins og áður sagði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert