Teknar á flugvellinum og fengu fangelsisdóm

Konurnar voru dæmdar í 45 daga fangelsi.
Konurnar voru dæmdar í 45 daga fangelsi. mbl.isÓmar Óskarsson

Þrjár bólivískar konur voru dæmdar í 45 daga fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í vikunni, fyrir að hafa framvísað fölsuðum dvalarleyfisskírteinum við komuna til landsins.

Var talið að sú málsvörn allra kvennanna, að þær hafi nú stöðu flóttamanns, breyti engu enda hafi brotin verið fullframin áður en þær óskuðu eftir alþjóðlegri vernd hér á landi.

Sögðust hafa hist í Dublin

Landamæravörður og lögregla höfðu afskipti af konunum við komu til landsins á Keflavíkurflugvelli en þar vaknaði grunur um framvísun falsaðra dvalarleyfisskírteina.

Konurnar kváðust hafa hist í Dublin á Írlandi og ákveðið að ferðast saman til Íslands. Þegar þær voru spurðar hvort dvalarleyfisskírteini sem þær ávísuðu við komuna til Íslands væru fölsuð kváðust þær ekki hafa vitað það þegar þær keyptu skilríkin á ferðaskrifstofu.

Kvaðst vera að flýja eiginmanninn

Sagðist ein kvennanna hafa verið fráskilin, óttast fyrrum eiginmann sinn og ákveðið að flýja til Íslands. Hún hafi síðan keypt dvalarleyfisskírteini og flugmiða fram og til baka frá Bólivíu til Dublin, ásamt hótelgistingu þar af karlmanni á ferðaskrifstofu í Bólivíu og greitt fyrir það 3.500 bandaríkjadali, eða það sem nemur um 505 þúsund krónum.

Í ljósi eindreginnar sakarneitunar kvennanna fyrir dómi voru þær ekki taldar eiga sér neinar málsbætur og þótti refsing hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi og þótti ekki tilefni til að skilorðsbinda þá refsingu, í samræmi við langa dómahefð. Þá voru konurnar jafnframt dæmdar til greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert