Metþátttaka var í forritunarkeppni framhaldsskólanna sem haldin var í gær í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Rakel Gunnarsdóttir, verkefnastjóri tölvunarfræðideildar HR, segir þátttökuna hafa farið fram úr öllum væntingum.
Alls skráðu 173 keppendur sig til leiks sem er metfjöldi en þar af voru um 40 þátttakendur á Akureyri. Keppnin var haldin í 23. sinn á laugardag og hefur ásókn í keppnina aukist ár frá ári.
„Við vorum að troðfylla stofurnar sem við höfum vanalega notað undir keppnina og þurfum að stækka svæðið undir keppnina ef þátttakendum fer fjölgandi. Það sem stóð upp úr varðandi þátttökuna var metfjöldi stelpna og að keppendur utan af landi hafi átt auðveldar með að taka þátt þar sem þau gátu haft aðstöðu í HA,“ segir Rakel.
Rakel telur að keppnin hafi jákvæð áhrif þegar kemur að því að fleiri skili sér í tölvunarfræðinám. Hún bendir auk þess á að allir framhaldsskólanemar geti tekið þátt í keppninni, jafnt þeir sem lært hafa forritun en keppninni er skipt í þrjár deildir eftir erfiðleikastigi.
„Við sjáum að nemendur sem hafa tekið þátt í keppninni ákveði að fara í tölvunarfræði þegar þau ljúka framhaldsskóla. Á nýnemadeginum í ár sá maður mörg andlit sem maður þekkti frá keppninni. Eins eru krakkarnir að skila sér í keppnina að ári liðnu ef þeir tóku til að mynda fyrst þátt á fyrsta ári í framhaldsskóla,“ segir Rakel.
Mikil spenna er í keppninni allt fram á lokamínútu en Rakel bendir á að fyrst og fremst snúist keppnin um að vekja áhuga og athygli á tölvunarfræðinni.
„Nemendur eru oft að fást við raunveruleg vandamál en farið er sjálfvirkt yfir verkefnin og staðan í beinni allt þar til klukkustund fyrir skil og var staðan þá fryst. Þetta er því gríðarlega spennandi í lokin þegar beðið er eftir niðurstöðum,“ segir Rakel.
Hér fyrir neðan má sjá úrslit keppninnar: