Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, kveðst ekki hafa áhyggjur af því að ríkisstjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta berjist nú fyrir lögum sem kveða m.a. á um að flugfélögum verði óheimilt að rukka fyrir sætisval um borð í flugvélum.
Vilji foreldrar eða forráðamenn vera öruggir um að sitja hjá börnum sínum um borð í flugvél Play verða þeir að greiða fyrir sætisvalið. Biden hefur harðlega gagnrýnt þau flugfélög sem neyða foreldra til þess að greiða aukalega fyrir að sitja hjá börnum sínum.
„Við auðvitað fylgjumst með þessu. Þetta er búið að vera í umræðunni vestan hafs mjög lengi, þetta er svo sem ekkert að koma upp núna. Við, eins og önnur flugfélög, förum auðvitað eftir þeim lögum og reglum sem eru sett í hverju landi. Þangað til þetta er innleitt í lög þá erum við svo sem ekki að velta okkur sérstaklega mikið upp úr þessu,“ segir Birgir í samtali við Morgunblaðið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.