Elva Hrönn Hjartardóttir, frambjóðandi til formanns VR, sakar Ragnar Þór Ingólfsson, mótframbjóðanda sinn og núverandi formann, um lygar óheiðarleika og falsfréttir. Það hafi einkennt kosningabaráttu hans og spilað stóran þátt í starfi hans sem formanns, að minnsta kosti upp á síðkastið. Það sé eitthvað sem muni ekki breytast. Þetta kemur fram í færslu sem Elva birti á Facebook-síðu sinni fyrr í dag, en kosningu til formanns og stjórnar VR lýkur á miðvikudaginn.
„Nú er mér allri lokið. Hvaða lygavef er nákvæmlega verið að spinna í höfuðstöðvum Ragnar Þór Ingólfsson um mig?!“ spyr hún og segist aldrei hafa talað um SALEK í sínum málflutningi, líkt og úthringjari fyrir Ragnar hafi ýjað að í símtal til VR-félaga
Hún segir Ragnar hafa matað fólk sem hringir út fyrir hann í kosningabaráttunni á lygum um andstæðinginn.
„Þetta er ekkert annað en popúlismi og þetta er klassískt dæmi um það þegar fólk í valdastöðu notfærir sér þekkingarleysi annarra til að bera út ósannindi og grafa undan lýðræðinu. Minnir þetta á eitthvað eða einhvern??“ skrifar Elva.
Með færslu sinni deilir Elva færslu frá konu sem fékk símtal þar sem hún var meðal annars hvött til að kjósa ekki fyrrverandi aðstoðarmann ráðherra, en þar var átt við Höllu Gunnarsdóttur, sem býður sig fram til stjórnar VR. Helsta ástæðan væri sú að ekki væri gott að fólk úr pólitíkinni hefði eitthvað með stéttabaráttuna að gera.
Elva segir þetta mikla hræsni, enda sé Helga Ingólfsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, í endurkjöri til stjórnar VR.
„Allur málflutningur hans og félaga hans um "VG konuna ógurlegu sem boðar bara teboð með atvinnurekendum" er ekkert nema hræsni þegar við horfum á framboð Ragnars Þórs.“
Ragnar svarar Elvu á Facebook og segir lítið hafa farið fyrir málefnalegri umræðu hjá henni og hennar stuðningsfólki. Hann hafi lesið ótrúlega ósanngjarna og illkvittna hluti um sig og sína persónu frá þeim. Hins vegar hafi hann fundið fyrir miklum stuðningi úr öllum áttum, stétta og stjórnmála sem hafi tekið það upp hjá sér að styðja og verja hann í ræðu og riti.
„Ég hef ekki alið allt þetta fólk á lygum eða spilað á þekkingarleysi þess, það kemur fram á sínum forsendum.“
Ragnar segist hafa kappkostað að láta kosningabaráttuna snúast um málefnin, verkefnin framundan og lausnir.
„En það sem ég mun ekki gera er að láta draga mig niður á það plan sem mótframbjóðandi minn og stuðningsfólk hennar er komið á og hefur ítrekað reynt að beina umræðunni á þann stað sem það vill helst vera.“