Afar kalt hefur verið upp á síðkastið og mældist mesta frost í Reykjavík í marsmánuði frá því árið 1998. Sigríður Dóra, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir fólk þurfa að hugsa sig um áður en að það fari út að æfa í þessum mikla kulda.
„Það eru almennar ráðleggingar að æfa ekki í úti í rosalega miklum kulda en þetta ertir öndunarveginn eins og kvef og svifryk,“ segir Sigríður Dóra.
Hún segir mikilvægt að fólk fylgi innsæinu og fari eftir því sem því líður vel með. Þá verði að taka vindkælingu með í reikninginn þegar fólk metur hvort það skuli hreyfa sig úti en það sé afar einstaklingsbundið hvað henti einstaklingum.
„Fólk er auðvitað í misjöfnu ástandi og verður að taka það með inn í myndina. Það verður hver og einn að meta það eftir því í hvernig ástandi hann er hvort það sé æskilegt að hreyfa sig. Þessi mikli kuldi er allavega mjög ertandi fyrir öndunarveginn og gerir okkur viðkvæmari fyrir,“ segir Sigríður Dóra.