Endurbætur hafa áhrif á innritun í sjö leikskóla

Barnagildum á hvern starfsmann hefur verið fækkað á leikskólum til …
Barnagildum á hvern starfsmann hefur verið fækkað á leikskólum til að auka rými hvers barns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki verður tekið við nýj­um börn­um í haust á leik­skól­ann Lauga­sól í Laug­ar­daln­um, vegna end­ur­bóta og viðgerða og end­ur­bæt­ur á hús­næði mun hafa áhrif á inn­rit­un í sex aðra leik­skóla í Reykja­vík.

Það eru Granda­borg og Gull­borg, en vegna fram­kvæmda í Granda­borg hef­ur börn­um þaðan verið fund­in pláss í ná­granna­leik­skól­an­um Gull­borg. Stefnt er að því að hefja fram­kvæmd­ir við Fífu­borg í sum­ar en starf­semi leik­skól­ans fær­ist yfir í Húsa­skóla tíma­bundið og verða því færri ný börn tek­in inn. Þá eru einnig fram­kvæmd­ir við Hlíð og Hálsa­skóg sem hafa áhrif á inn­töku barna í Ævin­týra­borg­un­um við Naut­hóls­veg og Voga­byggð vegna þess að starf­sem­in hef­ur eða mun flytj­ast tíma­bundið þangað. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Reykja­vík­ur­borg.

Á leik­skól­un­um Árborg, Vest­ur­borg, Kvista­borg og Sunnu­ás verða einnig tíma­bundið tek­in inn færri börn vegna fram­kvæmda og flutn­ings á starf­semi. Bú­ist er við að starf­semi Sunnu­áss flytj­ist frá Kringl­unni 1 aft­ur á lóð skól­ans við Dyngju­veg síðla sum­ars en unnið er að því að koma fyr­ir fær­an­leg­um stof­um þar.

Fram­kvæmd­um við Nóa­borg og Furu­skóg er lokið, að fram kem­ur í til­kynn­ing­unni en fram­kvæmd­ir í öðrum í leik­skól­um Reykja­vík­ur­borg­ar munu ekki hafa áhrif á inn­töku barna í haust. 

Þá er tekið fram að að eng­in börn hafi misst leik­skóla­pláss sín vegna end­ur­bóta og annarra fram­kvæmda í Reykja­vík. 

Stóra út­hlut­un­in hefst á morg­un 

Á morg­un, þriðju­dag­inn 14. mars, hefst út­hlut­un leik­skóla­plássa í Reykja­vík fyr­ir næsta haust og geta for­eldr­ar barna sem sótt hafa um í borg­ar­rekn­um skól­um bú­ist við að fá send boð um pláss á næstu vik­um. Ekki verður hins veg­ar byrjað að raða um­sókn­um sem ber­ast eft­ir 14. mars í for­gangs­röð fyrr en eft­ir að stóru út­hlut­un­inni lýk­ur 17. apríl næst­kom­andi.  

Hvað meðal­ald­ur barna við inn­töku varðar seg­ir í til­kynn­ing­unni að erfitt sé að full­yrða um það, en í Morg­un­blaðinu í dag er haft eft­ir Mörtu Guðjóns­dótt­ur, borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins, að meðal­ald­ur barna við inn­töku hafi verið 21 mánaða í fe­brú­ar síðastliðnum.

Börn­um fækkað til að auka rými 

Á síðasta ári voru fjór­ir nýir leik­skól­ar opnaðir í Reykja­vík og nýj­ar deild­ir tekn­ar í notk­un við eldri leik­skóla, en unnið er að því að fjölga leik­skóla­pláss­um í borg­inni í gegn­um Brú­um bilið aðgerðaráætl­un­ina.

„Hins veg­ar hef­ur á sama tíma staðið yfir annað metnaðarfullt átak í hús­næðismál­um grunn­skóla og leik­skóla sem miðar að því að upp­færa eldra hús­næði og bæta inni­vist og mun það til skemmri tíma hafa áhrif á stöðuna hvað varðar inn­töku nýrra barna. Mis­jafn­lega vel hef­ur gengið að fylla laus­ar stöður í leik­skól­um sem einnig hef­ur áhrif á fjölda leik­skóla­plássa sem eru í boði,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni frá borg­inni 

Í Morg­un­blaðinu í dag kem­ur fram að leik­skóla­pláss­um á leik­skól­um Reykja­vík­ur­borg­ar hafi fækkað um 680 á ár­un­um 2014 til 2022. En helsta skýr­ing­in á fækk­un plássa á ár­un­um 2015 til 2020 er ákvörðun um að fækka barna­gild­um á hvern starfs­mann í áföng­um og auka rými fyr­ir hvert barn. Þeirri vinnu lauk árið 2020 og fór leik­skóla­pláss­um þá aft­ur að fjölga, að seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Í Reykja­vík eru einnig 17 sjálfs­stætt starf­andi leik­skól­ar sem njóta fjár­hags­legs stuðnings frá borg­inni, en gert er ráð að 300 til 400 börn fái pláss í þeim í haust. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert