Gestur skemmtistaðarins The Dubliner sem var með skrámu á höfði eftir að karlmaður hleypti þar af skoti í gærkvöldi varð ekki fyrir skoti. Áverkar hans komu til með öðrum hætti.
Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, sem hefur ekki nánari upplýsingar um hvernig áverkarnir komu til. Í tilkynningu frá lögreglunni í gærkvöldi kom fram að tveir gestir staðarins hefðu fengið aðhlynningu. Annar var með skrámu á höfði og hinn hafði áhyggjur af heyrn sinni.
Spurður hvort gesturinn sem hafði áhyggjur af heyrn sinni hefði staðið við hliðina á skotmanninum svarar Grímur því neitandi. „Hvellurinn hefur verið töluverður inni á staðnum en það stóð enginn mjög nærri skotmanninum þegar hann hleypti af,“ segir hann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn að manninum en fyrr í morgun sagði Grímur við mbl.is að lögreglan væri að reyna að finna út hver hann er.
Lögreglan fékk tilkynningu um málið rétt upp úr klukkan sjö í gærkvöldi. Byssuskotið hafnaði á vegg við barinn og flúði skotmaðurinn vettvang í kjölfarið. Stuttu seinna fundu lögreglumenn skotvopn nærri vettvangi. Spurður hvort um haglabyssu sé að ræða eins og fullyrt hefur verið í fjölmiðlum vill Grímur ekkert tjá sig um það.