Karlmaðurinn sem hleypti af skoti inni á skemmtistaðnum Dubliner í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi hefur ekki gefið sig fram við lögreglu.
Að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild, er staða óbreytt frá því í gær þegar lögreglan skoraði á manninn að gefa sig fram. „Við tökum stöðuna og sjáum hvernig fram vindur í dag,“ segir Grímur um málið.
„Við erum á fullu að reyna að finna út hver þetta er og hvar við getum fundið hann,“ bætir hann við.
Búið er að ræða við vitni, auk þess sem lögreglan er að skoða öll gögn sem hún getur náð í, þar með talið eftirlitsmyndavélar.
Spurður út í vopnið sem fannst nærri skemmtistaðnum segir Grímur að verið sé að rannsaka hvort það tengist skotmanninum.