Flugvirkjar samþykktu með naumindum

GMT þjónustar öll flugfélög á Keflavíkurflugvelli, utan Icelandair.
GMT þjónustar öll flugfélög á Keflavíkurflugvelli, utan Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leyst hefur verið úr samn­inga­málum flug­virkja hjá fyr­ir­tæk­inu GMT ehf., sem meðal ann­ars starfa fyr­ir Play. Kjarasamningur til næstu tveggja ára var samþykktur með minnsta mögulega mun í atkvæðagreiðslu sem lauk á föstudag.

Flugvirkjar hjá GMT felldu kjarasamning í febrúar síðastliðinn.

GMT kom til móts við flugvirkja

Grét­ar Guðmunds­son, for­maður Flug­virkja­fé­lags Íslands, segir að GMT ehf. hafi að lokum komið til móts við flugvirkja að nokkru leyti.

„Í fyrsta lagi var gerður samningur til tveggja ára en búið var að fella samning til eins árs. Sett var inn ákvæði við hækkun á töxtum í janúar á næsta ári sem ákveðinn varnagli ef almennir samningar skyldu hækka umfram ákveðið viðmið þá verði hækkun á þessum töxtum endurskoðuð.

Við náðum einnig fram meiri hækkun á orlofsuppbót og fatapeningum en við höfðum náð fram í þeim samningi sem felldur var, þannig að þeir liðir eru farnir að nálgast aðra flugvirkjasamninga.

Okkur tókst þá að auka álag fyrir þá sem eru með útskriftarréttindi en það er eitthvað sem okkur þykir réttlætanlegt enda eru flugvirkjar búnir að kosta námskeið sjálfir til að afla sér þessara réttinda og er mikils virði fyrir félögin,“ segir Grétar.

Flugvirkjar hjá GMT ehf. starfa meðal annars fyrir Play.
Flugvirkjar hjá GMT ehf. starfa meðal annars fyrir Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylgt aðalkjarasamningi síðan árið 2018

Síðasti samn­ing­ur flug­virkja hjá GMT ehf, sem var und­ir­ritaður fyr­ir ára­tug síðan, hefur verið laus en árið 2018 var samið um að flug­virkjarn­ir myndu fylgja aðal­kjara­samn­ingi Flug­virkja­fé­lags Íslands sem þá var und­ir­ritaður og flest­ir flug­virkj­ar starfa eft­ir.

Grétar segist ekki síður telja mikilvægt fyrir GMT að það sé kominn á samningur.

„Fyrirtækið er að fara inn í „sumarseasonið“ eins og aðrir. Þeir eru betur staddir með kjarasamning uppá ráðningar og eru komnir með eitthvað fast til að vinna eftir.

Þeir voru búnir að vera að fara eftir launum í aðalkjarasamning sem er samningur við Icelandair sem flestir flugvirkjar starfa eftir,“ segir Grétar Guðmundsson, formaður Flug­virkja­fé­lags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert