Gestir neyðarskýla fluttir með leigubílum

Neyðarskýlið á Lindargötu.
Neyðarskýlið á Lindargötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Neyðarskýlum í Reykjavík var lokað í morgun klukkan tíu en afar kalt hefur verið í borginni síðustu daga. Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi á velferðarsviðið Reykjavíkurborgar, segir að passað hafi verið upp á gesti neyðarskýlanna eftir lokun og þeim komið í öruggt skjól.

„Eftir að neyðarskýlum var lokað í morgun fengu gestir far með leigubíl í Kaffistofu Samhjálpar eða í Skjólið, sem Hjálparstarf kirkjunnar rekur vegna kuldans,“ segir Hólmfríður og bætir við að Hjálpræðisherinn sé auk þess með opið hús á daginn

Neyðarskýlunum var því ekki haldið opnum allan sólarhringinn eins og gert var í desember og janúar vegna kuldakasts.

Undirbúa nóttina yfir daginn

Hólmfríður segir að alltaf sé fylgst vel með veðurspám og opnunartíminn lengdur eða gripið til annarra ráðstafana ef þurfa þykir. Hún bendir á að undirbúningur fari fram yfir daginn í neyðarskýlunum fyrir nóttina og því hafi verið gripið til þess ráðs að bjóða gestum far með leigubíl í öruggt skjól.

Neyðaráætlun vegna veðurs í málaflokki heimilislausra er virkjuð þegar fólki er almennt ráðlagt að halda sig inni við, í appelsínugulum og rauðum veðurviðvörunum, eða í miklu frosti vegna aukinnar hættu á ofkælingu. Ekki er miðað við ákveðið hitastig, heldur er staðan metin hverju sinni og fer meðal annars eftir vindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert