Áframhaldandi kuldi er í kortunum en á fimmtudaginn fer að hlýna og eru köldustu dagar kuldakastsins liðnir. Eins og áður hefur komið fram var afar kalt um helgina en þá mældist mesta frost í Reykjavík í marsmánuði frá því árið 1998.
„Það verður mjög kalt næstu daga en um helgina gæti orðið frostlaust og farið yfir frostmörk suðvestanlands.“
Þetta segir veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.
Gular viðvaranir hafa verið gefnar út vegna veðurs á Austfjörðum og Suðausturlandi. Varað er við hvassvirði eða stormi og geta aðstæður verið varhugaverðar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.
„Það þarf að fara að öllu með gát þar sem vindurinn blæs þvert yfir veginn en þegar það koma öflugar hviður yfir veginn þá getur það verið hættulegt og þá sérstaklega fyrir t.d. stóra bíla með léttan farm eða bíla sem taka á sig mikinn vind.“
Á Suðausturlandi má búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 33 m/s og á Austfjörðum er norðan og norðvestan hvassviðri eða stormur, 15-23 m/s, hvassast sunnantil.
„Það geta verið mjög öflugar hviður undir vatnajökli þegar norðanáttin steypist þarna niður en auk þess gætu verið einhverjar líkur á sandfoki. Það eru aðallega hviður við fjöll en það eru strengir sem liggja þarna og gætu farið staðbundið yfir 33 m/s.“