Lætur af formannsstörfum eftir aðgerð á heila

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands.
Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Karl Ágúst Úlfs­son, formaður Rit­höf­unda­sam­bands Íslands, hyggst stíga til baka sem formaður sam­bands­ins í kjöl­far aðgerðar þar sem góðkynja æxli var fjar­lægt úr heila hans.

Frá þessu grein­ir hann í til­kynn­ingu á Face­book-hópi Rit­höf­unda­sam­bands­ins. Utan for­mennsk­u­starfs­ins er Karl Ágúst þekkt­ur leik­ari og leik­stjóri og var einn stofn­enda Spaug­stof­unn­ar.

Hann seg­ir aðgerðina hafa gengið vel en að lík­am­leg geta hans og heil­a­starf­semi séu skert í kjöl­farið. Hann kveðst nú þegar hafa end­ur­heimt stór­an hluta hreyfigetu sinn­ar og að heil­a­starf­semi hans muni með öll­um lík­ind­um verða end­ur­heimt að fullu, en að eins og er sé starfs­geta hans til að sinna for­mann­sembætt­inu ekki full­nægj­andi að eig­in mati.

Karl Ágúst var kjör­inn formaður RSÍ árið 2018 og var á síðasta ári kjör­inn til að gegna embætt­inu áfram til árs­ins 2024. Mar­grét Tryggva­dótt­ir vara­formaður sam­bands­ins mun gegna skyld­um for­manns þangað til annað verður ákveðið.

Heilsu­fars­leg skakka­föll

Hér á eft­ir fer til­kynn­ing Karls í heild sinni:

Kæru fé­lag­ar

Á aðal­fundi RSÍ á síðasta ári var ég end­ur­kjör­inn formaður til tveggja ára. Í ljósi þess reiknaði ég með að gegna því starfi í sex ár sam­an­lagt, eða frá 2018 til 2024. En ekki er framtíð manns alltaf fyr­ir­sjá­an­leg og nú hef­ur komið í ljós að svo muni ekki verða. Það eru heilsu­fars­leg skakka­föll sem valda því.

Fyr­ir um það bil þrem­ur mánuðum var ég greind­ur með heila­æxli. Það reynd­ist vera góðkynja, ég var snar­lega skor­inn og æxlið fjar­lægt. Aðgerðin heppnaðist vel, en ég á þrátt fyr­ir það langt í land með að stunda þau störf sem ég hafði tekið að mér. Eitt af þeim er for­mennska RSÍ.

Áhrif skurðaðgerðar á heila manns geta verið mik­il og erfið viður­eign­ar. Aðgerðin dró stór­lega úr lík­am­legri getu minni, en ég hef náð að end­ur­heimta hluta henn­ar með sjúkraþjálf­un. Það er þó einkum og sér í lagi breytt starf­semi heil­ans sem háir mér og á að öll­um lík­ind­um eft­ir að skila sér til baka á löngu tíma­bili. Það hef­ur kveikt hjá mér al­var­leg­an efa á að ég búi nú um all­nokk­urt skeið yfir and­legri og vits­muna­legri getu sem mér þykir nauðsyn­leg til að sinna for­mennsku sam­bands­ins jafn vel og æski­legt er. Af þeirri ástæðu óska ég eft­ir að stíga út úr starfi for­manns RSÍ. Ég mun sem sagt ekki gegna embætt­inu fram að aðal­fundi árs­ins 2024. Mar­grét Tryggva­dótt­ir vara­formaður mun gegna skyld­um for­manns þangað til annað verður ákveðið.

Mér þykir afar vænt um Rit­höf­unda­sam­band Íslands og hef tekið að mér marg­vís­leg verk­efni fyr­ir það á þeim fjöru­tíu árum sem liðin eru frá því ég gerðist þar fé­lagi. Ég hef haft mikla ánægju af starfi sem formaður og þykir því býsna sárt að kveðja það fyrr en ég ætlaði. Ég tel það þó rétta ákvörðun og óska eft­ir að ein­hver taki við kefl­inu sem ræður við það bet­ur en ég um þess­ar mund­ir. Loks vil ég þakka það traust sem mér hef­ur verið sýnt og gott sam­starf við annað stjórn­ar­fólk, samn­inga­nefnd­ir og alla þá sem tekið hafa að sér að þjóna hags­mun­um rit­höf­unda á öll­um sviðum.

Bestu kveðjur til ykk­ar allra,

Karl Ágúst Úlfs­son

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert