Stuðningsmaður Leiknis í Reykjavík var með alla leikina rétta á getraunaseðlinum fyrir ensku knattspyrnuna á laugardaginn samkvæmt Íslenskri getspá.
Tipparinn gæti verið úr Breiðholtinu þar sem hann styður Leikni. Landsbyggðarmenn á Hornafirði og í Vestmannaeyjum voru getspakir fyrir viku síðan og stuðningsmaður Leiknis hefur nú svarað fyrir höfuðborgina.
Hann var með alla þrettán leikina rétta en fjórir voru þrítryggðir og þar af leiðandi öruggir. Þrír leikir voru tvítryggðir og í sex tilfellum hafði hann rétt fyrir sér með einni merkingu. Fyrir miðann greiddi tipparinn 8.424 krónur en fékk í staðinn tæpar 700 þúsund krónur.