Embætti héraðssaksóknara hefur ákært fjóra fyrir fjársvik með því að koma í umferð fölsuðum evru peningaseðlum í Reykjavík árið 2020. Höfðu viðkomandi meðal annars fengið tæplega 1,1 milljón krónur með því að skipta seðlunum í krónur og svo í fimm skipti notað seðlana til að greiða fyrir vörur eða þjónustu og fengið afgang í íslenskum krónum.
Um var að ræða 100 og 200 evra seðla, en það passar við tilkynningar lögreglunnar frá í janúar 2020 þegar varað var við svindlurum sem væru að koma slíkum seðlum í umferð. Var þá tekið fram að þeir hefðu helst herjað á sólarhringsverslanir, leiktækjasali og leigubíla.
„Svindlararnir fóru stuttar ferðir með leigubílum eða keyptu sígarettur og smávörur en fengu svo afgang í íslenskum krónum. Þannig tókst þeim að verða sér úti um talsverða peninga,“ sagði í tilkynningu lögreglu frá þeim tíma. Jafnframt er tekið fram að svo virðist vera sem svindlararnir hafi verið með búnt af fölskum seðlum sem hægt var að kaupa í Rússlandi.
Tvær konur og einn karl eru ákærð fyrir að hafa afhent starfsmanni fyrirtækis 35 stykki af fölsuðum 100 evra seðlum og 22 stykki af fölsuðum 200 evra seðlum og fengið fyrir þá samtals 1.084.828 krónur.
Fyrri konan er svo afhent fyrir að hafa í tvígang í sömu verslun greitt fyrir vörur með fölsuðum 200 evru seðlum og fengið 22-24 þúsund krónur til baka í hvort skiptið. Þá hafi hún einnig verslað snakkpoka á öðrum stað og fengið 25 þúsund krónur til baka eftir að hafa greitt með 200 evru seðli.
Seinni konan og karlinn eru svo einnig ákærð fyrir að hafa sitt í hvoru lagi verslað í sömu verslun og fyrri konan með fölsuðum 200 evru seðli og fengið greitt til baka um 21 þúsund krónur hvort.
Fjórði aðilinn er svo ákærður fyrir að hafa afhent falsaðan 100 evru seðil á veitingastað og fengið til baka 11.500 krónur.
Fara staðirnir fram á bætur vegna fjármunanna sem þeir voru sviknir um, en auk þess fer saksóknari fram á að fjórmenningarnir verði dæmdir til refsingar.