Samkomulag um 10 milljónir vegna nauðgunar

Fallist var á það að samkomulag um 10 milljónir í …
Fallist var á það að samkomulag um 10 milljónir í miskabætur væri ekki nýtt skjal og var endurupptöku því hafnað. Lögregla hafði áður vitað af skjalinu en ekki rannsakað það til hlítar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að vísa frá endurupptöku á nauðgunarmáli gagnvart karlmanni sem ákærður hafði verið fyrir að nauðga fyrrverandi sambýliskonu sinni. Tekist var á um það hvort samkomulag sem konan og maðurinn gerðu með sér um skaðabætur vegna brota mannsins væri nýtt gagn eða ekki og hvort það réttlætti að málið yrði tekið upp að nýju. Einn dómari við Landsrétt skilaði sératkvæði og vildi ógilda frávísunarúrskurð héraðsdóms þannig að málið yrði tekið þar fyrir.

Um er að ræða mál sem kom fyrst til kasta lögreglu í lok árs 2020. Kærði konan þá manninn fyrir bæði nauðgun og að hafa tekið upp myndir af kynfærum sínum meðan hún var sofandi. Bæði atvikin áttu að hafa gerst árið 2017.

Samkomulag um 10 milljónir í miskabætur

Í janúar árið 2021 lét konan lögreglu hins vegar vita að hún óskaði eftir því að falla frá kærunni. Kom síðar í ljós að hún og maðurinn gerðu með sér handskrifað samkomulag um að hann myndi greiða henni 10 milljónir sem miskabætur fyrir ýmis brot gegn því að hún myndi falla frá kæru og ekki taka málið upp aftur.

Konan óskaði hins vegar eftir því við lögreglu með yfirlýsingu í maí sama ár að málið yrði rannsakað.

Tekið fram að um nauðgun væri að ræða

Lögreglu varð ljóst um samkomulagið og í september þetta sama ár fékkst svar frá verjanda mannsins um innihald samkomulagsins. Sagði þar að maðurinn hafi átt að greiða konunni samtals 10 milljónir, fyrst 7 milljónir sem var aleiga hans á þeim tíma, en eftirstöðvarnar ekki síðar en á sex árum.  „Skýring þessarar greiðslu var að X átti að greiða þessa fjárhæð í miskabætur fyrir að hafa beitt A ofbeldi, s.s. fyrir brot á persónuverndarlögum, blygðunarsemisbrot fyrir að taka mynd af kynfærum A og jafnframt fyrir nauðgun,“ sagði í svari verjandans sem vísað er til í úrskurðinum. Svo er tekið fram að maðurinn hafi þó neitað sakargiftum um nauðgun í skýrslutökum.

Í svari verjandans er einnig tekið fram að maðurinn hafi skrifað undir samkomulagið undir miklum þrýstingi frá konunni og að hún hafi ítrekað hótað honum að valda honum mannorðshnekki, tala um kæruna á hendur honum á samfélagsmiðlum og við foreldra hans.

Fallið frá ákæru um nauðgun en nánari lýsing kom svo fram

Héraðssaksóknari ákvað í október þetta sama ár að falla frá ákærunni sem sneri að nauðgun, en ákært var fyrir blygðunarsemisbrot varðandi myndatökuna. Við aðalmeðferð málsins lagði verjandi mannsins samkomulagið hins vegar fyrir og var þá aðalmeðferð málsins stöðvuð og lét héraðssaksóknari vita að óskað yrði eftir endurupptöku nauðgunarhluta málsins.

Í samkomulaginu er nánar greint frá þeim brotum sem konan sakaði manninn um.  „Þessi fjárhæð er hugsuð sem miskabætur fyrir brot sem ég X [maðurinn] hef valdið A [konunni]. Þau brot eru andlegt ofbeldi í formi hótana og þvingana. Brot á persónuverndarlögum þar sem X braust inn á samfélagsmiðla A. Blygðunarsemisbrot þar sem X tók mynd af kynfærum A í leyfisleysi þegar hún var sofandi og nauðgun í endaþarm þegar A var sofandi áfengisdauða.“

Ekki yfirheyrð um skjalið þrátt fyrir vitneskju lögreglu

Ekki er hægt að endurupptaka mál nema fyrir liggi ný gögn eða staðreyndir sem séu til þess fallin að hafa áhrif á úrslit mála. Maðurinn taldi það ekki eiga við í þessu tilfelli þar sem saksóknari hefði vitað af samkomulaginu og fengið upplýsingar um nauðgun, sem maðurinn reyndar neitaði að hafa framið, áður en ákæra var gefin út.

Héraðsdómur féllst á þessa röksemd og sagði að lögregla hefði haft vitneskju um bæði tilvist og inntak samkomulagsins án þess að yfirheyra konuna eða manninn um það. Því verði ekki fallist á að samkomulagið sé nýtt gagn sem heimili endurupptöku.

Einn dómari á öndverðri skoðun

Sem fyrr segir féllst meirihluti Landsréttar á þetta, en Landsréttardómarinn Símon Sigvaldason skilaði sératkvæði.

Vísar hann þar meðal annars til Hæstaréttardóms frá 2014 sem svo vísar til fyrri Hæstaréttardóms frá árinu 1997 þar sem heimilað var að beita ákvæðum laga um endurupptöku þegar mál hafði verið fellt niður en ný sakargögn komið fram.

Þá segir í sératkvæðinu að sammerkt sé með kynferðisbrotamálum að sönnun sé jafnan örðug því yfirleitt sé ekki fyrir að fara öðrum sönnunargögnum en framburðum þeirra sem hlut eiga að málinu. Þá segir hann að þó að saksóknari hafi vitað af samkomulaginu hafi embættið ekki haft það undir höndum fyrr en í aðalmeðferðinni. „Er að mínu mati einsýnt að sóknaraðili hefði ekki fellt niður rannsókn á ætlaðri nauðgun varnaraðila ef þær upplýsingar hefðu legið á borði sóknaraðila,“ segir í sératkvæðinu og bætt er við að þær lýsingar sem komi fram í samkomulaginu séu nýjar af nálinni og þar með nýtt sönnunargagn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert