Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna snjómoksturs í desember 2022 og janúar 2023 var tæplega 600 milljónir króna samanlagt, eða 245 milljónir fyrir desember og 349 milljónir fyrir janúar.
Kostnaðurinn fer fram úr áætlunum enda getur verið erfitt að meta kostnað við snjómokstur fyrir fram. Þetta kemur fram í skriflegu svari Hjalta J. Guðmundssonar, skrifstofustjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Þar segir einnig að erfitt hafi verið að meta hve mörg tæki voru að störfum að jafnaði en föstu tæki borgarinnar, sem sinna snjóruðningi á götum, stofnanalóðum og göngu- og hjólaleiðum, hafi verið 32 talsins. Til viðbótar hafi verið aukatæki sem voru mismunandi mörg eftir aðstæðum, en þegar mest lét voru 110 tæki úti í seinni hluta janúar.