Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu tók á móti metfjölda tilkynninga um grun um peningaþvætti á nýliðnu ári.
Í nýjasta þætti Hvítþvottar, hlaðvarps um peningaþvætti, segir Guðmundur Halldórsson, lögreglufulltrúi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, peningaþvætti eiga fjölmarga snertifleti í íslensku samfélagi.
„Þetta er einfaldlega samfélagslegt mein,“ segir Guðmundur og nefnir að margir glæpir feli í sér peningaþvætti, m.a. þegar fólk reynir að auðgast hratt og auðveldlega með ólögmætum hætti.
Fjármálafyrirtækjum, lögmönnum, endurskoðendum og fleirum er skylt samkvæmt lögum að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um öll viðskipti sem þau grunar að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.
Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu bárust alls 2.090 tilkynningar um slík grunsamleg viðskipti í fyrra. Nær allar tilkynningarnar bárust frá fjármálafyrirtækjum, þ.e. fyrirtækjum sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins, eða 2.037. 19 tilkynningar bárust frá öðrum tilkynningarskyldum aðilum, 25 frá stjórnvöldum og níu frá almennum borgurum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá skrifstofunni.
Af þeim tilkynningum sem bárust í fyrra varðaði aðeins ein fjármögnun hryðjuverka og rímar það við mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra um að litlar líkur séu á hryðjuverkum hér á landi.
Á síðustu árum hefur tilkynningum til skrifstofunnar fjölgað gífurlega, en þær voru rétt um 1.200 árið 2018. Nýlega virðist þó vera komið meira jafnvægi í tilkynningafjöldann, en síðasta met var slegið árið 2020, þegar þær voru 2.033 talsins.
Aukinn fjöldi tilkynninga þýðir ekki endilega að peningaþvætti sé að sækja í sig veðrið hérlendis. Guðmundur nefnir að eftirlit tilkynningarskyldra aðila virðist vera orðið öflugra en áður og gæti það verið ein af meginskýringum aukningarinnar.
Þrátt fyrir fjölda tilkynninga er Guðmundur bjartsýnn á framhaldið í baráttunni gegn peningaþvætti.
„Mín upplifun er sú að við séum á leið í rétta átt og hlutirnir séu sífellt að batna, hvert sem maður lítur,“ segir Guðmundur.