Aðstæður voru eins og best verður á kosið í Hlíðarfjalli um helgina að sögn, Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns í Hlíðarfjalli, en um tvö þúsund manns fóru í fjallið á laugardaginn.
„Þetta voru bara eins og páskar, það var mjög kalt, heiðskírt og gott skyggni. Það var virkilega góð stemning í fjallinu um helgina en upp úr febrúar fer traffíkin að koma að sunnan,“ segir Brynjar og bætir við að ferðir á vegum skóla og félagsmiðstöðva hafi verið áberandi um helgina.
Heimsóknum útlendinga í Hlíðarfjall fjölgar talsvert í ár frá fyrri árum og fagnar Brynjar góðri mætingu í fjallið frá ólíkum hópum.
„Það hefur verið virkilega góð mæting í fjallið þegar við höfum getað haft opið. Við höfum séð mikla fjölgun ferðamanna en heimamenn eru líka duglegir að mæta og þá sérstaklega í desember og janúar,“ segir Brynjar.