1,3 milljarðar í viðbúnað

Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Hörpu í maí.
Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Hörpu í maí. mbl.is/Árni Sæberg

Útlit er fyrir að leiðtogafundur Evrópuráðsins, sem haldinn verður hér á landi í maí, kalli á mun hærri útgjöld en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Veitt var 500 millljóna kr. tímabundin fjárveiting í fjárlögum ársins til að auka viðbúnað lögreglu vegna fundarins en samkvæmt rekstraráætlun ríkislögreglustjóra er nú gert ráð fyrir að heildarútgjöld lögreglu gætu orðið á bilinu 1.279-1.373 milljónir króna. Vantar því 873 milljónir króna í fjárlögin til að standa undir þeim kostnaði.

Þetta kemur fram í áhættumati fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar þar sem birt er yfirlit yfir málaflokka sem stefna fram úr fjárheimildum á árinu. Hefur ráðuneytið áætlað að helstu áhættuþættir í rekstri gætu valdið allt að 12,2 milljarða kr. umframútgjöldum. Þar af stefna málaflokkar og stofnanir sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið um 5,8 milljarða kr. fram úr fjárveitingum.

2,6 milljarðar vegna fjölgunar umsókna um vernd

Fram kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd hafi fjölgað mikið og þung staða sé í afgreiðslu umsókna. Áhætta á umframútgjöldum vegna þessa er metin upp á 2,6 milljarða kr. Erfið staða á Sjúkrahúsinu á Akureyri og undirmönnun o.fl. á Landspítalanum kallar á um 860 milljóna kr. viðbótarútgjöld að óbreyttu. Lyfjaliður Sjúkratrygginga stefnir í 1.293 milljóna kr. halla á árinu. Enn fremur segir á minnisblaði ráðuneytisins að Kvikmyndamiðstöð geri ráð fyrir að áætlaðar endurgreiðslur á árinu geti numið um 7,6 milljörðum kr. en fjárveiting ársins er 5,7 milljarðar kr.

27 milljörðum kr. hærri gjaldfærsla

Í fjárlögum er gert ráð fyrir 141 milljarðs kr. gjaldfærslu vegna vaxtagjalda og lífeyrisskuldbindinga. Miðað við nýjustu spár stefnir í að gjaldfærslan verði allt að 27 milljörðum kr. hærri. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert