Urður Egilsdóttir
Eins og sakir standa eru engin sérstök áform uppi um endurskoðun á lögum um meðferð sakamála eins og þeim var breytt 2019.
Þetta segir í skriflegu svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is vegna bréfs Blaðamannafélags Íslands (BÍ) sem sent var á allsherjar- og menntamálanefnd, dómsmálaráðherra og dómstólasýsluna í síðustu viku.
Í bréfinu mótmælti BÍ túlkun héraðsdómara í stóra kókaínmálinu á lögum um meðferð sakamála og telur hana stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í stjórnarskránni.
Dómari bannaði fjölmiðlum að greina frá skýrslutökum í málinu fyrr en þeim væri öllum lokið í málinu. Skýrslutökurnar tóku um sjö vikur.
Í svari ráðuneytisins segir að bréfið verði tekið til skoðunar og að framkvæmd laganna verði „auðvitað áfram til umfjöllunar eftir atvikum“.
„Blaðamannafélagið lagðist alfarið gegn lagabreytingunum árið 2019 og taldi það setja enn frekari hömlur á fréttaflutningi af því sem fram fer í réttarsölum. Benti félagið á það í umsögn sinni um frumvarpið að það væri til þess gert að hamla því að þinghald fari fram fyrir opnum tjöldum.
Það sé grundvallaratriði í lýðræðisskipulagi að dómsvaldið sé sjálfstætt og stærsti þátturinn í aðhaldi að þessari grein ríkisvaldsins sé að þinghald sé eins opið og nokkur kostur er og gagnsæi um málsmeðferð tryggt með þeim hætti,“ sagði í bréfi BÍ.