„Við hófum að rannsaka þetta árið 2021 og vorum þá með gögn frá Rannsóknum og greiningu sem leggur spurningar fyrir öll 13 til 18 ára ungmenni á landinu sem eru í skóla,“ segir Þórhildur Halldórsdóttir, lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, í samtali við mbl.is.
Þórhildur og samstarfsfólk hennar við HR könnuðu áhrif kórónuveirufaraldursins á geðheilsu og vímuefnanotkun ungmennanna og byggðu rannsókn sína á 64.000 svörum þeirra við spurningum Rannsókna og greiningar frá árunum 2018 og 2020 til 2022. Birti heilbrigðisvísindatímaritið Lancet niðurstöðurnar á föstudaginn var í sérblaði sínu Child & Adolescent Health.
„Við fundum strax árið 2020, snemma í faraldrinum, að vanlíðan jókst, sérstaklega þunglyndiseinkenni, en á hinn bóginn dróst vímuefnaneysla saman, það er að segja notkun á sígarettum, rafrettum og áfengi og þá erum við að tala um tilfelli þegar svarendur drukku sig fulla, spurt var hvort þeir hefðu gert það síðustu 30 daga,“ heldur Þórhildur áfram.
Við skoðun gagna ársins 2022 komust Þórhildur og samstarfsfólk hennar að raun um að aukið þunglyndi og vanlíðan væri viðvarandi hjá hópnum þrátt fyrir að áhrifa faraldursins gætti í mjög dvínandi mæli. „Það eru auðvitað slæmu fréttirnar,“ segir lektorinn en bendir á að á hinn bóginn hafi tóbaksneyslan áfram verið á niðurleið en áfengisdrykkja hins vegar færst í aukana eftir að samkomubönnum var aflétt.
Þórhildur býður þá tilgátu um minni áfengisneyslu í faraldrinum að fyrstu skref unglinga á þeim vettvangi séu gjarnan í partýjum með jafnöldrum þar sem margir smakki áfengi í fyrsta sinn. „Vegna samkomutakmarkana voru engin partý svo þau byrjuðu ekkert að prófa sig áfram, þetta er svo félagslegt á þessum tíma,“ bendir hún á, „áfengisneyslan er að færast í fyrra horf og hér er áhyggjuefni að vanlíðan aukist samfara áfengisdrykkju, það er ekki jákvæð blanda og þetta er eitthvað sem þarf að fylgjast með,“ segir Þórhildur.
Hvernig telur hún að á því standi að þunglyndi og vanlíðan sé viðvarandi ástand hjá íslenskum ungmennum í kjölfar faraldursins?
„Það er spurning hvort Covid-19-faraldurinn hafi komið sem mikill streituvaldur inn í líf ungs fólks og valdið langvarandi aukningu. Fólk er ekki búið að jafna sig almennt eftir faraldurinn held ég og ungmenni átta sig alveg á því að þau hafa misst af einhverju í sínum uppvexti. Maður getur til dæmis ímyndað sér að það sé hræðilegt að vera 16 ára og missa af fyrsta árinu í menntó, þegar maður er að hitta alla og kynnast öllum, þetta er mjög leiðinlegur raunveruleiki,“ segir Þórhildur.
Hún segist enn fremur hafa heyrt af reiði meðal nemenda við Háskólann í Reykjavík í kjölfar langvarandi fjarnáms og takmarkana á staðnámi. „Þetta hefur verið mjög flókið og við erum enn að sjá áhrifin af þessu, þetta virðist halda áfram,“ segir hún.
Samstarfsfólk Þórhildar við rannsóknina eru þau Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur hjá Planet Youth, sem ásamt Þórhildi stjórnar rannsókninni, Heiðdís Valdimarsdóttir, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessorar við sálfræðideild HR, og Guðjón Ágústsson og Sæunn Óskarsdóttir, nemendur við skólann.
Kveikjuna að rannsókninni segir Þórhildur meðal annars hafa verið tíðar fréttir af ungu fólki og líðan þess meðan á faraldrinum stóð. „Þetta var mikið í fjölmiðlum, þar var til dæmis fjallað um mikla fjölgun hringinga til Rauða krossins vegna vanlíðanar hjá börnum og unglingum. Fólk hafði skiljanlega miklar áhyggjur af afleiðingum faraldursins. Því langaði mig að kanna á hlutlausan hátt hvort þarna væri raunveruleg aukning eða ekki á vanlíðan og þá voru gögnin frá Rannsóknum og greiningu náttúrulega alveg fullkomin í það,“ útskýrir hún.
Ísland njóti þeirrar sérstöðu í heiminum að hafa gögn frá nánast öllum ungmennum landsins, að minnsta kosti öllum sem eru í skóla. „Það eru engin önnur lönd sem eru með gögn á landsvísu bæði fyrir og eftir Covid. Það er nefnilega vandasamt að mæla þetta því það þarf að bera saman árganga, ekki bara fylgja eftir einum hópi. Við vitum að þunglyndiseinkenni til dæmis og áfengisneysla eykst á þessum árum svo ef þú skoðar bara einn hóp gætirðu aldrei sagt til um hvort aukningin sé eðlileg eða hún sé meiri vegna tilkomu Covid. En með gögnunum frá Rannsóknum og greiningu gátum við gert það af því við vorum alltaf að bera saman heila árganga af jafnöldrum,“ heldur Þórhildur áfram.
Meðal þess sem samstarfsfólkið rannsakaði einnig var sú breyta hvort íslenska væri töluð heima fyrir eða ekki með tilliti til þess hvort ungmenni sem ekki ættu sér fjölskyldubakgrunn hér á landi væru í meiri áhættu, það hefðu sumar rannsóknir erlendis sýnt. „Það virtist ekki vera áhættuþáttur hérlendis, þetta reyndist ekki vera viðkvæmari hópur,“ segir Þórhildur og kveður þau einnig hafa skoðað hvort hér hefði áhrif að búa í Reykjavík eða annars staðar. Það hafi heldur ekki skipt máli.
„Það sem skipti hins vegar máli var félagslegur stuðningur foreldra, hann var alltaf verndandi, óháð því hvort streituvaldurinn hafi verið Covid eða ekki, þannig að almennt séð þarf að passa upp á góð tengsl milli foreldra og ungmenna,“ segir Þórhildur og nefnir svefn sem annan mikilvægan verndandi þátt. Ungmenni, sem hafi haldið sinni svefnrútínu og sofið minnst átta klukkustundir á nóttu, hafi haft það betra.
„En það að við fundum ekki neina ákveðna áhættuhópa eða eitthvað sem var sérstaklega verndandi, bara heilt yfir, bendir til þess að við þurfum ef til vill að kanna að vera með stórtæka íhlutun til að reyna að grípa ungmennin okkar og koma til móts við þessa aukningu á vanlíðan,“ segir Þórhildur og nefnir þar íhlutun í skólakerfinu sem mögulega leið til úrbóta.
Hvernig sæi hún fyrir sér að slík íhlutun yrði framkvæmd?
„Það hefur verið gert áður og hefur reynst mjög vel, til dæmis var einni slíkri íhlutun ætlað að draga úr þunglyndiseinkennum. Þetta er allt byggt á hugrænni atferlismeðferð sem er gagnreynd aðferð til að draga úr geðrænum einkennum, sérstaklega þunglyndi og kvíða,“ segir Þórhildur.
Til að ráðast í slíkar aðgerðir þurfi þó eins og venjulega peninga og ekki liggja þeir alltaf á lausu. „Það er það flókna. Og svo þarf að þjálfa fólk í þetta og viðhalda þessu því ef þetta er sett bara í kerfið og enginn er að fylgjast með dvína áhrifin alltaf,“ segir Þórhildur sem mun fylgja þeirri vinnu eftir sem nú hefur þegar verið unnin og hyggst hún næst beina sjónum sínum að þeim hópi sem fæddur er árið 2004.
„Við förum af stað með það eftir nokkrar vikur, við ætlum að skoða betur hvaða þættir eru verndandi og hvaða þættir eru áhættuþættir. Maður þarf að vera með mælingar fyrir og eftir til að geta fengið skýrari mynd af því hvað er að gerast,“ segir Þórhildur Halldórsdóttir lektor að lokum af rannsóknum sínum og samstarfsfólksins við Háskólann í Reykjavík þar sem niðurstöðurnar eru að sumu leyti uggvekjandi og sýna svo ekki verður um villst að heimsfaraldurinn er enn á sveimi í hugskoti ungu kynslóðarinnar þótt öll boð hans og bönn séu löngu liðin tíð.