„Fólk miss­ir bara vinn­una“

Thelma veit ekki hvað hún kemur til með að segja …
Thelma veit ekki hvað hún kemur til með að segja vinnuveitandanum þegar fæðingarorlofinu lýkur. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held að for­eld­ar hafi fengið áfall í gær. Öllu fögru hef­ur verið lofað og ekki staðið við neitt,“ seg­ir Thelma Björk Wil­son í sam­tali við mbl.is.

Vís­ar hún til frétta frá því í gær um að færri börn verði inn­rituð á leik­skóla Reykja­vík­ur­borg­ar næsta haust en von­ir stóðu til um og að neyð blasi við, meðal ann­ars vegna fram­kvæmda og end­ur­bóta á leik­skóla­hús­næði.

Thelmu blöskraði svo að hún stofnaði Face­book-hóp­inn Leik­skóla­mál í lamasessi í Reykja­vík 2023 og vill vekja at­hygli á slæmri stöðu í þess­um mála­flokki hjá borg­inni. Ekki sé nóg hjá borg­ar­yf­ir­völd­um að út­skýra hvers vegna áform hafi ekki staðist, held­ur verði að leggja til ein­hverj­ar lausn­ir. Sjálf hef­ur hún ekki fengið dag­vist­un fyr­ir sitt barn og veit ekki hvað tek­ur við þegar fæðing­ar­or­lofinu lýk­ur.

Fram­kvæmd­ir og end­ur­bæt­ur á leik­skóla­hús­næði munu hafa áhrif á inn­rit­un í sjö leik­skóla í haust, sem hef­ur svo keðju­verk­andi áhrif, þar sem ein­hverj­ir for­eldr­ar hafa breytt um­sókn­um sín­um í þeirri von um að koma börn­um sín­um frek­ar inn á aðra leik­skóla.

Thelma bend­ir á for­eldr­ar sem hafi sótt um á þeim leik­skól­um þar sem end­ur­bæt­ur eða fram­kvæmd­ir standa yfir, hafi fengið póst um að fá eng­in eða mjög fá börn kom­ist þar inn. Í póst­in­um sé jafn­framt mælt því fólk breyti um­sókn­um sín­um og setji ann­an leik­skóla í fyrsta val eða merki við fleiri val­kosti en einn eða tvo.

„Fólk er þá kannski að fara aft­ar á lista. Fólk veit ekki hvað það á að gera og þetta er óviðun­andi ástand.“

Flytja í for­eldra­hús til hafa efni á að lifa

Thelma, sem sjálf er með 7 mánaða barn, sem hún ger­ir ekki ráð fyr­ir að kom­ist inn á leik­skóla á veg­um borg­ar­inn­ar fyrr en haustið 2024, miðað við stöðuna eins og hún er í dag, von­ast til að for­eld­ar geti sam­ein­ast sem þrýstiafl og knúið fram breyt­ing­ar.

Hún seg­ir hóp­inn, Leik­skóla­mál í lamasessi í Reykja­vík 2023, al­gjör­lega hafa sprungið á fyrsta degi en í hon­um eru nú um 400 manns. Boðað hef­ur verið til mót­mæla í Ráðhús­inu á fimmtu­dag­inn kl. 9, þegar fund­ur í borg­ar­ráði fer fram.

„Það eru all­ir með fá­rán­leg­ar sög­ur. Fólk er að flytja úr íbúðunum sín­um og leigja þær á Airbnb. Flytja í for­eldra­hús til hafa efni á því að lifa,“ seg­ir Thelma og vís­ar þar til fólks sem ekki hef­ur fengið dag­vist­un, hef­ur því ekki getað farið aft­ur að vinna eft­ir fæðing­ar­or­lof og er fyr­ir vikið al­gjör­lega tekju­laust.

„Það er alltaf verið að tala um að brúa bilið. Núna er fæðing­ar­or­lof 12 mánuðir en meðal­ald­ur inn á leik­skóla í borg­inni 20 mánaða, þannig þetta eru heil­ir átta mánuðir sem for­eldr­ar þurfa að brúa. Jú það eru ein­hverj­ir ung­barna­leik­skól­ar og nokkr­ir dag­for­eldr­ar,“ seg­ir hún en bend­ir á að þeim fari stöðugt fækk­andi.

Færri börn komast inn á leikskóla Reykjavíkurborgar næsta haust en …
Færri börn kom­ast inn á leik­skóla Reykja­vík­ur­borg­ar næsta haust en von­ir stóðu til um. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Veit ekki hvað hún seg­ir vinnu­veit­and­an­um

Skóla- og frí­stunda­svið Reykja­vík­ur­borg­ar hef­ur ekki enn getað gefið upp­lýs­ing­ar um meðal­ald­ur barna sem tek­in verða inn í haust eða hve neðarlega í aldri verði kom­ist við út­hlut­un. Marta Guðjóns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær að meðal­ald­ur barna við inn­göngu á leik­skóla hefði verið 20 mánaða í fe­brú­ar síðastliðnum.

Í mars á síðasta ári sendi Reykja­vík­ur­borg frá sér til­kynn­ingu þar sem fram kom að opna ætti sjö nýja leik­skóla á ár­inu og stefndi borg­in á að taka í notk­un 850 leik­skóla­pláss sam­hliða því. Þá stóð til að bjóða ætti börn­um frá 12 mánaða aldri pláss á leik­skól­um síðasta haust. Þau áform hafa hins veg­ar ekki staðist.

Thelma seg­ir eng­an hvata vera fyr­ir dag­for­eldra til að starfa áfram vegna ít­rekaðra yf­ir­lýs­inga borg­ar­yf­ir­valda um að börn­um frá 12 mánaða aldri verði boðin leik­skóla­pláss.

„Svo eru börn­in hjá dag­for­eldr­um orðin miklu eldri því leik­skól­ar eru að taka börn­in svo seint inn. Ég veit um mjög fáa sem hafa fengið pláss hjá dag­for­eldr­um. Maður spyr sig, hvað á fólk í al­vör­unni að gera? Líka bara fyr­ir kom­andi kyn­slóðir, þetta er mjög letj­andi kerfi til barneigna. Þú sérð fyr­ir þér, ef þú eign­ast barn, að vera í ein­hvers­kon­ar óvissu or­lofi um óákveðinn tíma og ann­ar aðil­inn á heim­il­inu verður þá kannski tekju­laus.“

Sjálf veit Thelma ekki hvað hún á að gera í haust þegar 12 mánaða fæðing­ar­or­lofi henn­ar og barns­föður henn­ar lýk­ur. „Ég velti fyr­ir mér hvað ég á að gera í haust og hvað ég á að segja mín­um vinnu­veit­anda. Fólk miss­ir bara vinn­una.“

Leikskólabörn að leik.
Leik­skóla­börn að leik. Ljós­mynd/​Reykja­vík­ur­borg

Fela sig bak við myglu­mál­in

Helgi Gríms­son, sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar, sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag það vera baga­legt að ekki væri hægt að taka inn eins mörg börn á leik­skóla borg­ar­inn­ar í haust og til stóð. Skýr­ing­arn­ar væru þær að borg­in hefði misst of mikið hús­næði tíma­bundið úr rekstri vegna fram­kvæmda, börn­um hefði fjölgað meira í Reykja­vík en spár gerðu ráð fyr­ir og taf­ir hafi verið á af­hend­ingu nýs leik­skóla­hús­næðis.

Thelma seg­ist al­veg skilja að eitt­hvað óvænt geti komið upp sem geri það að verk­um að áform stand­ist ekki, og eðli­legt sé að út­skýra það. Það vanti hins veg­ar ein­hverj­ar lausn­ir á vand­an­um.

„Það er allt í lagi að skýra af hverju þetta gekk ekki upp, en hvað tek­ur þá við í staðinn? Önnur sveit­ar­fé­lög eru að bregðast við þessu og þetta virðist í lagi í ná­granna­lönd­un­um. Þau geta alltaf falið sig á bakvið að þetta sé myglu­mál­um að kenna. Auðvitað verður allt erfiðara en ég trúi ekki að það sé ástæðan,“ seg­ir Thelma.

Hún hvet­ur alla þá sem vilja sjá breyt­ing­ar til að mæta í ráðhúsið á fimmtu­dag­inn og taka þátt í mót­mæl­un­um. Ekki bara for­eldra með börn sem fá ekki leik­skóla­pláss, held­ur líka aðra for­eldra, verðandi for­eldra, ömm­ur og afa og alla hina.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert