Miklar skemmdir urðu á hársnyrtistofunni Hárfjelagið í Álfheimum eftir að bíl var ekið á rúðu stofunnar. Fjórir voru þar inni þegar óhappið varð. Hársnyrtar stofunnar segja engan hafa slasast hjá sér en atvikið hafi verið þeim og kúnnunum mikið áfall.
„Við horfðum á þetta gerast allan tímann og náðum að forða okkur frá öllum glerbrotunum sem rigndi yfir hérna,“ segja Lilja Ragnarsdóttir og Auður Bryndís Sigurðardóttir hársnyrtar Hárfjelagsins. Þær voru báðar með kúnna í stólum sínum þegar óhappið varð.
Aðspurðar segja þær atburðarásina hafa verið snögga.
„Bíllinn bakkar fyrst í burtu á bíla sem eru þá fyrir miðju stæðinu og það verður mikill dynkur. Við lítum þá öll út um gluggann og þá sjáum við að hann kemur á fleygiferð til baka og á gluggann og við hlaupum í burtu.“
Hvað varðar reksturinn segjast þær ekki vita hvernig næstu dagar verði. Það muni koma í ljós. Menn frá tryggingunum séu mættir til þess að þrífa og meta húsnæðið. Þá þurfi að loka fyrir brotnu rúðuna.
Lilja og Auður segjast mjög þakklátar fyrir að óhappið hafi gerst þegar lítið var af fólki á svæðinu. Mikið af börnum sæki svæðið vegna ísbúðar sem er nokkrum dyrum frá.
„Við erum mjög glaðar að allir séu heilir á húfi, þetta eru dauðir hlutir sem skemmdust, fyrir utan stúlkuna sem að slasaðist hér úti á plani en vonandi nær hún sér sem fyrst.“ Þær segja stúlkuna hafa verið að koma út úr bíl sem hafi verið keyrt á.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru tveir einstaklingar fluttir á slysadeild til aðhlynningar með minniháttar meiðsl.