Hafna áfrýjunarbeiðni skotárásarmanns

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Oddur

Hæstiréttur hafnaði í dag beiðni Árnmars Jóhannesar Guðmundssonar um að áfrýja dómi Landsréttar frá því í desember á síðasta ári. Árnmar hlaut átta ára fangelsi fyrir tvær tilraunir til manndráps, annars vegar með þeim ásetningi að bana fyrrverandi eiginmanni sambýliskonu sinnar og hins vegar að bana lögreglumanni sem svaraði útkalli á heimilinu.

Frá vettvangi skotmálsins í Dalseli á Egilsstöðum.
Frá vettvangi skotmálsins í Dalseli á Egilsstöðum. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Auk þess var Árnmar sakfelldur fyrir hús­brot, eign­arspjöll og vopna­laga­brot, hót­un, brot gegn barna­vernd­ar­lög­um, brot gegn vald­stjórn og hættu­brot og var gert að greiða sonum sambýliskonu sinnar tvær milljónir króna.

Lögfræðingur Árnmars, Þórður Már Jóns­son, áfrýjaði dómnum til Landsréttar, sem staðfesti dóminn í desember á síðasta ári. Þá var beiðni um að áfrýja dómnum til Hæstaréttar send 6. febrúar í ár, en henni var hafnað í dag.

Sagði framburð lögreglu ekki bera saman 

Þórður hefur reynt að fá sak­irnar gegn Árnmari um til­raun til mann­drápa felldar niður, en hann hefur gagnrýnt að framburð lögreglumannanna beri ekki saman. Þórður sagði það hafa komið skýrt fram í rannsókn að lögreglumenn hefðu hleypti af vopnum sínum á sömu sekúndu og Árnmar, en að lögreglan hefði skotið ellefu sinnum en Árnmar þrisvar. 

Árnmar sagðist ekki hafa ætlað að ráða fyrrverandi eiginmanni sambýliskonu sinnar bana heldur að hræða hann. Maðurinn hefði ekki verið á staðnum þegar Árnmar kom á vettvang og því er vafasamt samkvæmt Þórði að dæma hann fyrir tilraun til manndráps á manni sem ekki var á staðnum. 

Í ákvörðun Hæstaréttar í dag segir að Landsréttur hafi „sannað að leyfisbeiðandi hefði tekið ákvörðun um að ráða fyrrgreindum einstaklingi bana umrætt sinn og sýnt þann ásetning ótvírætt í verki svo að refsingu varðaði“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert