Hagnaður OR 8,4 milljarðar

Bjarni Bjarnason forstjóri segir gott að skila góðu búi og …
Bjarni Bjarnason forstjóri segir gott að skila góðu búi og boðar stór verkefni og áríðandi, meðal annars baráttu gegn loftslagsvá. Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

„Rekst­ur er í traust­um far­vegi hjá sam­stæðu Orku­veitu Reykja­vík­ur (OR) og af­koma góð um leið og eign­ir vaxa ört,“ seg­ir í frétta­til­kynn­ingu veit­unn­ar um árs­reikn­ing henn­ar fyr­ir 2022. Kem­ur þar enn frem­ur fram að gjald­skrá sér­leyf­is­rekst­urs hafi lækkað að raun­gildi. „Fjár­hags­staða Orku­veitu Reykja­vík­ur sam­kvæmt árs­reikn­ingi 2022 ger­ir fyr­ir­tækið því vel búið í nauðsyn­leg sjálf­bærni­verk­efni ís­lensks sam­fé­lags næstu árin.“

Inn­an sam­stæðu OR eru dótt­ur­fyr­ir­tæk­in Veit­ur, Orka nátt­úr­unn­ar, Ljós­leiðar­inn og Car­bfix auk Orku­veit­unn­ar sjálfr­ar. Samþykkti stjórn OR árs­reikn­ing sam­stæðunn­ar í dag en hann sýn­ir 8,4 millj­arða króna hagnað af rekstr­in­um.

Verðbólg­an bít­ur

„Stjórn legg­ur til við aðal­fund að greidd­ur verði arður sem nem­ur 5,5 millj­örðum króna. Eig­end­ur Orku­veitu Reykja­vík­ur eru Reykja­vík­ur­borg, Akra­nes­kaupstaður og Borg­ar­byggð,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni þar sem enn frem­ur kem­ur fram að sam­stæðan standi af sér verðbólg­una enn sem komið sé en hún hafi þó haft tals­verð áhrif á rekstr­ar­kostnaðinn.

„Það bít­ur tals­vert þegar verðbólga eykst stór­lega eft­ir langt lág­vaxta­skeið heims­far­ald­urs­ins. Þannig jókst vaxta- og verðbóta­kostnaður sam­stæðu OR úr 8 millj­örðum króna árið 2021 í 13 millj­arða á síðasta ári. Hærra ál­verð hef­ur einna helst áhrif á tekju­vöxt á milli ára. Fleiri þætt­ir sem voru rekstr­in­um hag­kvæm­ari gerðu kleift að halda hækk­un gjald­skráa und­ir verðbólguþróun sem þýðir raun­lækk­un til fyr­ir­tækja og heim­ila. EBITDA-hlut­fall árs­ins var 62,7% og fram­legð rekst­urs­ins held­ur því áfram að vera mik­il og traust,“ seg­ir til­kynn­ing­in.

Kol­efn­is­spor stækkaði milli ára

Í Árs­skýrslu OR fyr­ir 2022, sem kem­ur út sam­hliða árs­reikn­ingn­um, er grein gerð fyr­ir um­hverf­isþátt­um rekst­urs fyr­ir­tækja sam­stæðunn­ar í fyrra, sam­fé­lags­leg­um þátt­um og stjórn­ar­hátt­um auk ým­issa fjár­hags­legra mæli­kv­arða.

„Kol­efn­is­spor sam­stæðunn­ar stækkaði milli ár­anna 2021 og 2022 en út­lit er fyr­ir að það smækki veru­lega á næstu árum með auk­inni stein­renn­ingu kol­efn­is frá jarðgufu­virkj­un­um Orku nátt­úr­unn­ar,“ seg­ir í til­kynn­ingu.

Jafn­framt kem­ur Áhrifa­skýrsla grænn­ar fjár­mögn­un­ar OR út og árita lög­gilt­ir end­ur­skoðend­ur OR, fyr­ir­tækið Grant Thornt­on, skýrsl­una. Fjall­ar skýrsl­an um ráðstöf­un þess fjár­magns sem OR hef­ur tekið að láni inn­an græns fjár­mögn­unarramma fyr­ir­tæk­is­ins.

Kol­efn­is­hlut­leysi lyk­il­atriði

„Það er gott að skila góðu búi,“ er haft eft­ir Bjarna Bjarna­syni, for­stjóra OR, í frétta­til­kynn­ing­unni. „Fjár­hag­ur Orku­veitu Reykja­vík­ur hef­ur aldrei verið traust­ari en nú en það veit­ir held­ur ekki af. Verk­efn­in sem við blasa eru í senn stór og áríðandi. Bar­átt­an gegn lofts­lags­vánni er brýn svo og aðlög­un að af­leiðing­um lofts­lags­breyt­ing­anna.

Mark­mið Orku­veitu Reykja­vík­ur um kol­efn­is­hlut­leysi er lyk­il­atriði og við verðum að leggja lóð sam­stæðunn­ar á vog­ar­skál­ar hringrás­ar­hag­kerf­is. For­ysta fyr­ir­tækj­anna inn­an sam­stæðu OR í orku­skipt­um er í senn óum­deild og mun skipta veru­legu máli um það hvernig þjóðinni tekst til,“ seg­ir Bjarni enn frem­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert