Hart sótt að kærunefnd vegna Venesúela

Þorsteinn Gunnarsson, formaður kærunefndar útlendingamála, á fundinum í morgun.
Þorsteinn Gunnarsson, formaður kærunefndar útlendingamála, á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hart var sótt að kærunefnd útlendingamála á opnum fundi allsherjar og menntamálanefndar í morgun. Umræðuefnið var viðbótarvernd fólks frá Venesúela sem Ísland hefur eitt Evrópuþjóða veitt í kjölfar úrskurðar í júlí á síðasta ári. 408 manns frá Venesúela hafa sótt um vernd á undanförnum tveimur mánuðum.

Þorsteinn Gunnarsson, formaður kærunefndar útlendingamála, sat fyrir svörum fyrir hönd nefndarinnar en Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sótti harðast fram í gagnrýni sinni.

Spurði Birgir hvers vegna ekki hefði verið farið að fordæmi annarra landa á borð við Spánar, Svíþjóðar og þá sérstaklega Noregs, sem íslensk lög byggja á, um að að synja fólki frá Venesúela um viðbótarvernd.

Þorsteinn vísaði í fyrstu í íslensk lög og úrskurðinn sem féll í júlí á síðasta ári sem hann sagði ítarlega rökstuddan. Sagði hann bundinn af íslenskum lögum en ekki norskum. Þetta sé rakið í úrskurði kærunefndar.

Hvað veit kærunefndin sem aðrir vita ekki? 

Birgir lét sér ekki segjast og benti á að í Noregi hefði verið send sendinefnd til Venesúela til að kanna aðstæður og í framhaldinu hefði verið ákveðið að synja fólki um viðbótarvernd. Spurði hann í því samhengi hvort kærunefndin vissi eitthvað um málið sem önnur lönd vissu ekki.

Þorsteinn sagði að vissulega hefði engin nefnd farið til Venesúela en þess í stað hefði verið notast við gögn um málið, m.a. frá Flóttamannanefnd Sameinuðu þjóðanna og skýrslur utanríkisþjónustunnar. Benti hann á að þrátt fyrir tilraunir Evrópuþjóða til þess að taka á hlutunum með samræmdum hætti væri það alþekkt að tekið væri ólíkt á þessum málum eftir löndum.

Birgir Þórarinsson úr Sjálfstæðisflokki sótti hvað harðast að kærunefndinni á …
Birgir Þórarinsson úr Sjálfstæðisflokki sótti hvað harðast að kærunefndinni á fundinum. Með honum á myndinni eru Helga Vala Helgadóttir frá Samfylkingu og Jódís Skúladóttir frá VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómskerfið hrunið 

Spurði Birgir þá sérstaklega um það hvers vegna hefði verið tekið tillit til efnahagslegra aðstæðna í úrskurðinum og annars á borð við slælegs heilbrigðiskerfis, slæmra vatnsgæða og hárrar glæpatíðni.

Þorsteinn sagði þennan punkt tekinn úr samhengi í úrskurði. Efnahagslegar aðstæður hefðu takmarkað gildi þegar kemur að því að veitt sé viðbótarvernd. Sagði hann að ekki hefðu verið efnahagslegar forsendur fyrir því að einstaklingurinn sem fékk viðbótarvernd í júlí í fyrra.

Þá kom fram í svari hans við spurningu Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingar, um það hvort vargöld ríki í Venesúela að horft hefði verið til þess í úrskurðinum að kerfi Venesúela væru hrunin og nefndi hann dómskerfið sérstaklega í því samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert