Umhverfisstofnun hefur ákveðið að loka nýfundnum helli við Jarðböðin í Mývatnssveit í ljósi fágætra og viðkvæmra jarðhitaútfellinga sem þar hafa fundist.
Í tilkynningu er vitnað til þess að hraunhellar og virkar útfellingar af völdum jarðhita njóti verndunar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Lokunin tekur gildi klukkan 12 í dag og gildir í tvær vikur. Stefnt er að því að endurskoða lokunina innan þess tíma.
„Á meðan lokunin er í gildi getur Umhverfisstofnun, í samráði við rekstraraðila Jarðbaðanna, veitt leyfi fyrir ferðum í hellinn sem tengjast frekari könnun hans og öðrum rannsóknum á honum, en öll önnur umferð verður óheimil,“ segir í tilkynningunni.
Frá því að hellirinn fannst hefur umferð um hann verið verulega takmörkuð með það að markmiði að valda sem minnstu raski á þeim jarðminjum sem þar er að finna.
„Dreifing útfellinganna um hellinn er slík að erfitt er að ferðast um hann án þess að valda óafturkræfu raski á útfellingunum,“ segir í tilkynningunni og að starfsmenn Eflu hafi unnið að kortlagningu og skönnun hellisins.