Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir miklu skipta fyrir íslenska ráðamenn að hitta Selenskí Úkraínuforseta í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins á Íslandi. „Þetta verður aðalmálið þar.“
Mbl.is náði tali af Katrínu í Úkraínu nú í morgun, en þar hafði hún og fylgdarlið hennar skoðað vettvang stríðsins, en síðdegis mun hún hitta Volodimír Selenskí Úkraínuforseta.
„Við komum hingað í morgun og vorum í Borodjanka og Bútsja,“ skýrir hún frá. „Okkur voru fyrst sýndar rústir í Borodjanka, fjölbýlishús sem hafa verið sprengd í loft upp, og fórum svo og hittum íbúa sem búa í smáhýsum,“ segir hún og ljóst að heimsóknin hefur verið áhrifamikil.
„Þá lá leiðin til Bútsja, en þar eru til sýnis blaðaljósmyndir af fjöldagröfunum, sem þar fundust. Þar hittum við borgarstjórann Anatolíj Fedorúk, sem lýsti þessu fyrir okkur.“ Hún segir mikilvægt að hafa orðið vitni að ummerkjunum og ræða við þá sem búa við árásirnar.
„Það er allt öðru vísi að sjá þetta sjálfur og hitta þetta fólk, sem er búið að standa í þessum hryllingi. Það er náttúrlega alveg svakalegt og horfa á leifarnar um venjulegt líf inni í þessum sundursprengdu fjölbýlishúsum. Þetta er auðvitað með ólíkindum,“ segir Katrín og er greinilega brugðið. „Svona er nú bara stríð.“
„Við erum aftur á leið til Kænugarðs og þar verður þéttbókuð dagskrá. Þar verður m.a. farið að minnismerki um hina föllnu, þar sem við leggjum blómsveig frá Íslendingum,“ segir Katrín.
„Síðan eigum við fundi með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta, forsætisráðherranum, utanríkisráðherra og fleiri ráðherrum í ríkisstjórn Úkraínu,“ en í íslenska hópnum er einnig Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og aðstoðarmenn þeirra.
Katrín gefur ekkert út á það hvort hún og utanríkisráðherra muni leggja áherslu á að Selenskí komi til Íslands á leiðtogafund Evrópuráðsins, sem fram fer um miðjan maí.
„Hann er náttúrlega búinn að segjast ætla að taka þátt í fundinum, hvort sem það verður um fjarfundabúnað eða með því að koma í eigin persónu. Við munum fara yfir fundinn í maí, enda verða málefni Úkraínu þar í brennidepli. Hver aðkoma Evrópuráðsins verður að þessum sérstöku ráðstöfunum, sem eru þessi tjónaskrá, mögulegar skaðabætur og annað slíkt. En hann er búinn að staðfesta að hann muni taka þátt, annað hvort á fjarfundi eða á staðnum, en það verður svo bara að skýrast þegar nær dregur hvernig því verður háttað.“
Katrín segir að íslenski hópurinn haldi heim á leið í kvöld og komi til Íslands á miðvikudag. „Af því að við erum með þessa formennsku [í Evrópuráðinu], sem fellur í okkar hlut á 23 ára fresti, þá skiptir það miklu máli að við komum hingað, sérstaklega þar sem þessi mál verða aðalmálið.“