Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra eru nú staddar í Úkraínu.
Mikil leynd hefur hvílt yfir dagskrá ráðherranna, m.a. af öryggisástæðum, en með í för eru nokkrir aðstoðarmenn ráðherranna og fréttamenn Ríkisútvarpsins.
Í morgun heimsóttu þær borgina Bútsja, sem er nærri Kænugarði. Úkraínsk yfirvöld hafa sakað yfirvöld í Moskvu um vísvitandi fjöldamorð á almennum borgurum í borginni.
Íslendingar hafa lagt sitt af mörkum til aðstoðar Úkraínu efttir innrás Rússa, efnahagslega með fjárstuðningi, með mannúðaraðstoð, stuðningi við varnir og ekki síst pólitískt á alþjóðavettvangi. Gert er ráð fyrir að frekari stuðningur við Úkraínu verði ræddur og kynntur í ferðinni.
Þá er tilefni heimsóknarinnar einnig formennska Íslands í Evrópuráðinu og leiðtogafundur ráðsins sem fer fram í Reykjavík í maí, en Úkraína mun hafa þýðingarmikið hlutverk á leiðtogafundinum.