Neysla á kjöti og kjötafurðum hefur dregist nokkuð saman hér á landi ef marka má tölur frá Hagstofunni.
Neysla hefur dregist saman í öllum tegundum kjötafurða á síðastliðnum fimm árum. Mest hefur dregið úr neyslu hrossaafurða eða um tæp 20 prósent á síðastliðnum fimm árum en minnst hefur dregið úr neyslu nautaafurða eða um rúm 3 prósent á sama tíma.
Tölur Hagstofunnar koma heim og saman við könnun Landlæknisembættisins á mataræði Íslendinga á árunum 2019–2021.
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að dregið hafi úr heildarneyslu á kjöti og kjötvörum frá síðustu könnun sem gerð var á árunum 2010-2011 um um tæp 10 prósent.
Athygli vekur að samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur neysla á kindaafurðum dregist saman um rúm 7 prósent en lambakjöt hefur lengi átt upp á pallborðið hjá landanum og þá hefur það verið kynnt sérstaklega fyrir erlendum ferðamönnum.
Ágúst Andrésson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa og forstöðumaður Kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, segist telja sölu á lambakjöti hafa verið stöðuga hér á landi á undanförnum árum.
Sölutölur styðja þá tilfinningu formannsins enda er heildarsala kjötafurða ekki að dragast saman með teljandi hætti hér innanlands heldur er neytendum að fjölga og þar með neyslu á mann.
„Það er eitt sem vegur annað upp á milli ára, til dæmis virtist kórónaveirufaraldurinn hafa áhrif á sölu á lambakjöti því þá voru Íslendingar heima og gerðu vel við sig og grilluðu en lambakjötið er alltaf vinsælt á grillið. Svo koma ferðamennirnir sem vilja lambakjöt umfram allt annað kjöt þó auðvitað sé líka svolítil sala í nautakjöti,“ segir Ágúst.
Hann segir framleiðslu á dilkakjöti frá bændum hafa verið að dragast saman undanfarin ár sem komi fyrst niður á útflutningi.
„Við reynum það sem við getum til að sinna innlenda markaðnum fyrst en ég óttast að á einhverjum tímapunkti muni þessi þróun koma niður á innlendum markaði líka. Samdrátturinn í framleiðslunni á síðasta ári miðað við árið á undan var 600 tonn sem jafnast á við besta sölumánuð ársins.“
Hann segir að bæði hafi færri lömbum verið slátrað og meðalþungi þeirra minni.“
Ágúst hefur áhyggjur af því að ef kaupmáttur minnki mikið hér á landi og að það kreppi frekar að muni það koma niður á innkaupakörfunni.
„Fólk færir sig þá yfir í eins ódýr prótín og völ er á,“ segir Ágúst.
Rætt hefur verið um kjötneyslu í samhengi við umhverfismál en margir hafa vaxandi áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur reiknað út losun gróðurhúsalofttegunda frá kjötframleiðslu.
Áætlað er að framleiðsla á kjöti og dýraafurðum valdi tæpum 15% af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannana völdum. Framleiðsla nautgripaaafurða losar langmest en framleiðsla á kjúklingum og svínakjöti losar til dæmis þriðjungi minna af gróðurhúsalofttegundum.
Hvort samdrátt í kjötneyslu megi rekja til umhverfissjónarmiða skal ósagt látið eða hvort sífellt fleira fólk kjósi að borða ekki kjöt og kjötafurðir vegna sinna lífsskoðana.
Ef til vill hefur sambland af þessu tvennu áhrif eða kannski eru landsmenn farnir að borða minni skammta eða hlutfall kjöts á diskunum hefur minnkað.