„Mitt mat er að aukna notkun á rafsígarettum megi rekja beint til aukins framboðs og markaðssetningar á einnota rafrettum.“ segir Skarphéðinn Grétarsson, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun, sem hefur eftirlit með nikótínvörum og rafrettum, í samtali við mbl.is.
„Einnota rafrettur hafa verið á markaði lengi en á síðustu tveimur árum hafa þær orðið sífellt fyrirferðameiri í skráningarferli og á markaði. Þær hafa það fram yfir fjölnota rafrettur að notandinn kaupir og notar rafsígarettuna strax án alls umstangs.“
Greint var frá því fyrir helgi að notkun á rafrettum hafi tvöfaldast á síðustu þremur árum samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup.
Skarphéðinn segir að aukin notkun nikótínpúða og rafretta sé auðvitað áhyggjuefni. „Nikótín er mjög ávanabindandi efni og flestir sem reynt hafa að hætta notkun hverskonar vara sem innihalda efnið vita að það er ekkert grín.“
Erfitt sé að spá fyrir um hvort notkun haldi áfram að aukast en hann bindur miklar vonir við að nýlegar lagabreytingar muni hafa áhrif á notkun bæði nikótínpúða og rafretta.
Samkvæmt upplýsingum embættis Landlæknis var rafsígarettunotkun nokkuð stöðug í nokkur ár eftir að mælingar hófust árið 2016, að sögn Viðars Jenssonar, verkefnisstjóra tóbaksvarna hjá embættinu. Hann segir notkun hafa aukist undanfarin ár og þá sérstaklega meðal yngri kynslóðarinnar.
„Þessi notkun byrjaði mjög bratt, áramótin 2019 til 2020, og mældist strax mjög hátt meðal ungs fólks og hefur verið að smá aukast síðan.“ segir Viðar í samtali við mbl.is um notkun landsmanna á nikótínpúðum. Samhliða þeirri aukningu hefur notkun á munntóbaki „nánast hrunið.“
Um þriðjungur fólks á aldrinum 18 til 29 ára notar nikótínpúða daglega samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Þegar litið er á alla aldurshópa eru nú þrefalt fleiri sem nota nikótínpúða daglega heldur en árið 2020.
Í febrúar greindi mbl.is frá því að leitað væri með tvö til þrjú börn á Barnaspítala Hringsins í hverri viku vegna nikótóneitrunar, þá oftast eftir að þau hafa sett upp í sig nikótínpúða í ógáti.
Viðar segir að karlar séu líklegri en konur til þess að nota nikótínpúða og er munurinn sýnilegri hjá eldri aldurshópum. „Notkun á nikótínpúðum nær alveg upp yfir miðjan aldur karlmanna en ekki kvenna.“
Með aukinni notkun nikótínpúða hefur dregið úr reykingum og þá sérstaklega meðal yngri kynslóða. Í Þjóðarpúlsi Gallup sagðist enginn á aldrinum 18-29 ára reykja daglega.
„Það er auðvitað rosalega jákvætt hvað það hefur dregið úr reykingum og það hefur orðið töluverð breyting þar á,“ segir Viðar og bætir við að reykingar meðal fólks á menntaskólaaldri mælist nú mjög litlar.