Segja dómstólum ekki hvernig á að túlka ákvæði

Margrét Björk Jónsdóttir, fréttamaður Vísis, Erla Björg Gunnarsdóttir, ritstjóri fréttastofu …
Margrét Björk Jónsdóttir, fréttamaður Vísis, Erla Björg Gunnarsdóttir, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, og Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, mættu í dómsal ásamt Reimari Péturssyni lögmanni þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við segjum ekki dómstólunum hvernig þeir eiga að túlka ákvæði, en við getum allavega rætt þetta og reynt að stuðla að því að það verði samræmd afstaða hjá dómstólunum. Þannig lít ég á okkar hlutverk,“ segir Kristín Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, í samtali við mbl.is. 

Tilefnið er ákvörðun dómara í stóra kókaínmálinu þess efnis að fjöl­miðlum væri óheim­ilt að greina frá skýrslu­tök­un­um fyrr en þeim væri öll­um lokið í mál­inu. Ritstjórn Vísis taldi hins vegar að oftúlk­un á lög­um væri að ræða og birti frétt upp úr vitna­leiðslum sak­born­ing­anna fjög­urra í mál­inu, þremur dögum áður en öllum skýrslutökum lauk. 

Rit­stjórn Vís­is var boðuð í dómssal í upphafi síðustu viku þar sem dómari sagði að enginn ákvörðun hefði verið tekin um viðurlög við birtingu fréttarinnar. Á föstudag greindi Vísir síðan frá bréfi dómara þar sem hann sagði ekki vera forsendur til að aðhafast í málinu. 

Rit­stjórn Vís­is var boðuð í dómssal í upphafi síðustu viku.
Rit­stjórn Vís­is var boðuð í dómssal í upphafi síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrr í vikunni lýsti Blaðamanna­fé­lag Íslands (BÍ) yfir þung­um áhyggj­um í bréfi vegna ákvörðunar dómara að kalla ritstjórnina fyrir dómi. BÍ sendi bréfið á allsherjar- og menntamálanefnd, dómsmálaráðherra og dómstólasýsluna. 

BÍ mót­mæl­ti túlk­un dóm­ar­ans á lög­um um meðferð saka­mála í til­kynn­ingu sinni og tel­ur hana stang­ast á við ákvæði um tján­ing­ar­frelsi í stjórn­ar­skránni. 

Dómara að túlka lögin

Dóm­ari í stóra kókaínmálinu vísaði meðal annars í 1 mgr. 11. grein laga um meðferð sakamála eftir breytingu á lögunum frá 2019:

Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur.

Þá segir að brot gegn 1 mgr. varðar sektum.

Kristín nefnir að það sé dómaranna að túlka lögin í sínum dómsathöfnum. 

„Auðvitað fer það ekkert framhjá okkur að þetta er mjög umdeilt,“ segir hún og nefnir að dómstólasýslan muni fara vel yfir málið og ræða meðal annars við dómsstjóra. 

„Þetta er eitthvert orðalag í ákvæðinu sem menn eru að velta fyrir sér hvort að eigi að túlka rúmt eða þröngt, eins og ég sé þetta,“ segir Kristín en lögmaður Sýnar benti á fyrir dómi að í lögunum er vísað til skýrslutöku í eintölu. Því stæði ekki í lögunum að bannað væri að greina frá því sem fram kæmi fyrr en öllum skýrslutökum í málinu væri lokið.

Kristín Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar.
Kristín Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar. Haraldur Jónasson/Hari

„Gríðarlega miklir hagsmunir þarna undir“

„Það eru náttúrulega gríðarlega miklir hagsmunir þarna undir sem dómararnir eru að horfa á líka,“ segir Kristín. 

Hún nefnir að afstaða dómara sé mögulega að hann beri ábyrgð á að menga ekki vitnisburð vitna og sakborninga og þannig eyðileggja málið. 

„En síðan getur það þurft að vera matsatriði hvort það eigi alltaf við,“ segir Kristín og bætir við að dómstólasýslan þurfi að skoða það.

„Sérstaklega þegar tengist svona á skýrslutökum,“ segir hún en í heildina liðu um sjö vikur frá fyrstu til síðustu skýrslutöku í stóra kókaínmálinu. 

Verður rætt á næsta stjórnarfundi 

Kristín segir flókið fyrir dómstólasýsluna að stíga inn í starf dómstólanna þar sem þeir séu sjálfstæðir. 

Dómstólasýslan er sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem fer með og er í fyrirsvari fyrir sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna allra og stuðlar að því að dómstólarnir geti sem best rækt hlutverk sitt. 

„Við reynum nú að láta okkur varða mál sem að skipta upplýsingagjöf máli. En við þurfum að stíga varlega til jarðar þannig að dyrunum sé ekki skellt á okkur heldur.“

Kristín segir að samræma þurfi sjónarmiðin á túlkun ákvæðisins, sem geti þó verið mismunandi frá einu máli til annars. „En allavega að menn séu sammála um hvort það sé eitthvað rúm fyrir túlkun.“

Hún segir að lokum að dómstólasýslan þurfi að ræða málið á næsta stjórnarfundi og einnig við dómsmálaráðuneytið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert