„Þarna röðuðu stjörnurnar sér ekki okkur í hag“

Færri börn verða innrituð í leikskóla borgarinnar í haust en …
Færri börn verða innrituð í leikskóla borgarinnar í haust en til stóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað er þetta baga­leg staða,“ seg­ir Helgi Gríms­son, sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs hjá Reykja­vík­ur­borg, en fyr­ir ligg­ur að ekki verði hægt að taka inn eins mörg börn á leik­skóla Reykja­vík­ur­borg­ar næsta haust, og von­ir stóðu til.

Í mars á síðasta ári sendi Reykja­vík­ur­borg frá sér til­kynn­ingu þar sem fram kom að opna ætti sjö nýja leik­skóla á ár­inu og stefndi borg­in á að taka í notk­un 850 leik­skóla­pláss sam­hliða því. Þá stóð til að bjóða ætti börn­um frá 12 mánaða aldri pláss á leik­skól­um síðasta haust. Voru þessi áform hluti af end­ur­skoðaðri heild­aráætl­un og gert var ráð fyr­ir því að pláss­um á leik­skól­um borg­ar­inn­ar myndi fjölga um allt 1.680 á þrem­ur árum.

Þessi áform hafa hins veg­ar ekki gengið eft­ir, meðal ann­ars vegna raka­skemmda og myglu í leik­skóla­hús­næði og viðgerða vegna þess, en end­ur­bæt­ur og fram­kvæmd­ir munu hafa áhrif á inn­rit­un í sjö leik­skóla næsta haust.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Gríms­son, sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar. Ljós­mynd/​Aðsend

All­ir fyr­ir­var­ar gengu eft­ir

Helgi seg­ir ákveðna fyr­ir­vara hafa verið setta þegar áformin voru kynnt fyr­ir ári síðan og þeir hafi því miður all­ir gengið eft­ir.

„Þegar þessi áform voru kynnt borg­ar­yf­ir­völd­um fyr­ir ári síðan þá voru sett­ir fyr­ir­var­ar um að þetta væri miðað við fyr­ir­liggj­andi spá um fjölda barna, áform um skil á hús­næði myndi ganga eft­ir og við mynd­um halda öllu hús­næði sem þá var í píp­un­um. Og mönn­um myndi ganga vel, með vís­an til síðustu ára. En þarna röðuðu stjörn­urn­ar sér ekki okk­ur í hag,“ seg­ir Helgi.

„Bæði erum við búin að missa of mikið hús­næði tíma­bundið úr rekstri út af fram­kvæmd­um og börn­um í Reykja­vík hef­ur fjölgað um­fram spá. Þá hafa ein­hverj­ar taf­ir verið á af­hend­ingu nýju hús­næði sem við átt­um að fá árið 2022 yfir á árið 2023,“ seg­ir hann jafn­framt. Allt sé hins veg­ar reynt til að út­vega sem flest leik­skóla­pláss næsta haust, en það sé við ramm­an reip að draga.

„Þegar svona kraft­ar koma sam­an þá er al­veg aug­ljóst að áætlan­ir og fyr­ir­heit geta með engu móti gengið eft­ir. En við erum með all­ar árar úti til þess út­vega leik­skóla­hús­næði og það er vel þrýst á að þær fram­kvæmd­ir sem eru í gangi, muni ganga eft­ir.“

Helgi seg­ir stöðuna von­brigði fyr­ir alla; starfs­fólk á skrif­stofu og á leik­skól­un­um sjálf­um og ekki síst þær fjöl­skyld­ur sem lenda í vand­ræðum.

Áform um að styrkja dag­for­eldra­kerfið

Til að gera stöðuna enn erfiðari hef­ur dag­for­eldr­um fækkað jafnt og þétt á síðustu árum og því lenda marg­ir for­eldr­ar í vand­ræðum með dag­vist­un fyr­ir yngstu börn­in sem fá ekki leik­skóla­vist. Árið 2014 voru til að mynda 198 dag­for­eldr­ar starf­andi í Reykja­vík, á ár­inu 2022 voru þeir 98 en núna, í mars 2023, eru 86 dag­for­eldr­ar skráðir í Reykja­vík og nokkr­ir munu hætta störf­um á næstu mánuðum.

Helgi seg­ir það vissu­lega rétt að lít­il nýliðun hafi átt sér stað í hópi dag­for­eldra og að marg­ir séu komn­ir á þann ald­ur að þeir séu að hætta störf­um.

Það séu hins veg­ar áform uppi um að styrkja dag­for­eldra­kerfið og er út­færsla á því í vinnslu hjá borg­ar­yf­ir­völd­um.

„Það hafa fleiri ung­barna­leik­skól­ar hafa verið opnaðir og við höf­um verið að færa okk­ur neðar í aldri varðandi leik­skóla­vist­ina. For­eldr­ar hafa al­mennt frek­ar kosið að börn­in séu á leik­skóla, þess vegna hef­ur verið meiri orka og þrýst­ing­ur í kring­um það að styrkja leik­skóla­kerfið. En sann­ar­lega er það þannig að marg­ir kjósa að hafa börn­in frek­ar hjá dag­for­eldr­um þegar þau eru sem yngst og það er eitt­hvað sem er verið að skoða al­var­lega.“

Óvíst er hve neðarlega verður hægt að komast í aldri …
Óvíst er hve neðarlega verður hægt að kom­ast í aldri í út­hlut­un plássa í ár. Ljós­mynd/​Reykja­vík­ur­borg

„Heil­mikið púsl sem er í gangi núna“ 

Í dag, þriðju­dag­inn 14. mars, hófst út­hlut­un leik­skóla­plássa í Reykja­vík fyr­ir næsta haust og geta for­eldr­ar barna sem sótt hafa um í borg­ar­rekn­um skól­um bú­ist við að fá send boð um pláss á næstu vik­um. Ekki verður hins veg­ar byrjað að raða um­sókn­um sem ber­ast eft­ir 14. mars í for­gangs­röð fyrr en eft­ir að stóru út­hlut­un­inni lýk­ur 17. apríl næst­kom­andi.  

Helgi seg­ir börn­in alltaf tek­in inn í ald­urs­röð og á því sé eng­in breyt­ing. Vert er þó að taka fram að ákveðinn hóp­ur barna hef­ur for­gang inn á leik­skóla, meðal ann­ars vegna fjöl­skylduaðstæðna eða veik­inda, og eru þau börn tek­in inn allt niður í 12 mánaða.

„Inn­rit­un­in geng­ur út á það núna að elstu börn­in kom­ast fyrst inn og svo fær­um við okk­ur neðar í aldri eft­ir því sem niðurstaða ligg­ur fyr­ir um hvaða um­sókn­um er hægt að verða við. Þá sést hvað for­eldr­ar völdu. Svo kem­ur önn­ur um­ferð og svona höld­um við áfram þangað til við erum búin að bjóða í þau pláss sem við höf­um föst í hendi.“

Helgi seg­ir aðspurður erfitt að segja til um það hve neðarlega verði hægt að kom­ast í aldri í þess­ari fyrstu út­hlut­un. Það fari allt eft­ir vali for­eldra og hve mörg pláss séu laus á hverj­um leik­skóla fyr­ir sig. „Þannig að þetta er heil­mikið púsl sem er í gangi núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert