„Þarna röðuðu stjörnurnar sér ekki okkur í hag“

Færri börn verða innrituð í leikskóla borgarinnar í haust en …
Færri börn verða innrituð í leikskóla borgarinnar í haust en til stóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað er þetta bagaleg staða,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, en fyrir liggur að ekki verði hægt að taka inn eins mörg börn á leikskóla Reykjavíkurborgar næsta haust, og vonir stóðu til.

Í mars á síðasta ári sendi Reykjavíkurborg frá sér tilkynningu þar sem fram kom að opna ætti sjö nýja leikskóla á árinu og stefndi borgin á að taka í notkun 850 leikskólapláss samhliða því. Þá stóð til að bjóða ætti börnum frá 12 mánaða aldri pláss á leikskólum síðasta haust. Voru þessi áform hluti af endurskoðaðri heildaráætlun og gert var ráð fyrir því að plássum á leikskólum borgarinnar myndi fjölga um allt 1.680 á þremur árum.

Þessi áform hafa hins vegar ekki gengið eftir, meðal annars vegna rakaskemmda og myglu í leikskólahúsnæði og viðgerða vegna þess, en endurbætur og framkvæmdir munu hafa áhrif á innritun í sjö leikskóla næsta haust.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

Allir fyrirvarar gengu eftir

Helgi segir ákveðna fyrirvara hafa verið setta þegar áformin voru kynnt fyrir ári síðan og þeir hafi því miður allir gengið eftir.

„Þegar þessi áform voru kynnt borgaryfirvöldum fyrir ári síðan þá voru settir fyrirvarar um að þetta væri miðað við fyrirliggjandi spá um fjölda barna, áform um skil á húsnæði myndi ganga eftir og við myndum halda öllu húsnæði sem þá var í pípunum. Og mönnum myndi ganga vel, með vísan til síðustu ára. En þarna röðuðu stjörnurnar sér ekki okkur í hag,“ segir Helgi.

„Bæði erum við búin að missa of mikið húsnæði tímabundið úr rekstri út af framkvæmdum og börnum í Reykjavík hefur fjölgað umfram spá. Þá hafa einhverjar tafir verið á afhendingu nýju húsnæði sem við áttum að fá árið 2022 yfir á árið 2023,“ segir hann jafnframt. Allt sé hins vegar reynt til að útvega sem flest leikskólapláss næsta haust, en það sé við ramman reip að draga.

„Þegar svona kraftar koma saman þá er alveg augljóst að áætlanir og fyrirheit geta með engu móti gengið eftir. En við erum með allar árar úti til þess útvega leikskólahúsnæði og það er vel þrýst á að þær framkvæmdir sem eru í gangi, muni ganga eftir.“

Helgi segir stöðuna vonbrigði fyrir alla; starfsfólk á skrifstofu og á leikskólunum sjálfum og ekki síst þær fjölskyldur sem lenda í vandræðum.

Áform um að styrkja dagforeldrakerfið

Til að gera stöðuna enn erfiðari hefur dagforeldrum fækkað jafnt og þétt á síðustu árum og því lenda margir foreldrar í vandræðum með dagvistun fyrir yngstu börnin sem fá ekki leikskólavist. Árið 2014 voru til að mynda 198 dagforeldrar starfandi í Reykjavík, á árinu 2022 voru þeir 98 en núna, í mars 2023, eru 86 dagforeldrar skráðir í Reykjavík og nokkrir munu hætta störfum á næstu mánuðum.

Helgi segir það vissulega rétt að lítil nýliðun hafi átt sér stað í hópi dagforeldra og að margir séu komnir á þann aldur að þeir séu að hætta störfum.

Það séu hins vegar áform uppi um að styrkja dagforeldrakerfið og er útfærsla á því í vinnslu hjá borgaryfirvöldum.

„Það hafa fleiri ungbarnaleikskólar hafa verið opnaðir og við höfum verið að færa okkur neðar í aldri varðandi leikskólavistina. Foreldrar hafa almennt frekar kosið að börnin séu á leikskóla, þess vegna hefur verið meiri orka og þrýstingur í kringum það að styrkja leikskólakerfið. En sannarlega er það þannig að margir kjósa að hafa börnin frekar hjá dagforeldrum þegar þau eru sem yngst og það er eitthvað sem er verið að skoða alvarlega.“

Óvíst er hve neðarlega verður hægt að komast í aldri …
Óvíst er hve neðarlega verður hægt að komast í aldri í úthlutun plássa í ár. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Heilmikið púsl sem er í gangi núna“ 

Í dag, þriðju­dag­inn 14. mars, hófst út­hlut­un leik­skóla­plássa í Reykja­vík fyr­ir næsta haust og geta for­eldr­ar barna sem sótt hafa um í borg­ar­rekn­um skól­um bú­ist við að fá send boð um pláss á næstu vik­um. Ekki verður hins veg­ar byrjað að raða um­sókn­um sem ber­ast eft­ir 14. mars í for­gangs­röð fyrr en eft­ir að stóru út­hlut­un­inni lýk­ur 17. apríl næst­kom­andi.  

Helgi segir börnin alltaf tekin inn í aldursröð og á því sé engin breyting. Vert er þó að taka fram að ákveðinn hópur barna hefur forgang inn á leikskóla, meðal annars vegna fjölskylduaðstæðna eða veikinda, og eru þau börn tekin inn allt niður í 12 mánaða.

„Innritunin gengur út á það núna að elstu börnin komast fyrst inn og svo færum við okkur neðar í aldri eftir því sem niðurstaða liggur fyrir um hvaða umsóknum er hægt að verða við. Þá sést hvað foreldrar völdu. Svo kemur önnur umferð og svona höldum við áfram þangað til við erum búin að bjóða í þau pláss sem við höfum föst í hendi.“

Helgi segir aðspurður erfitt að segja til um það hve neðarlega verði hægt að komast í aldri í þessari fyrstu úthlutun. Það fari allt eftir vali foreldra og hve mörg pláss séu laus á hverjum leikskóla fyrir sig. „Þannig að þetta er heilmikið púsl sem er í gangi núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert