Þriggja bíla árekstur varð í Fagradal á Austurlandi fyrr í dag. Að sögn lögreglunnar á Austurlandi eru allir sem lentu í slysinu heilir á húfi en tveir voru þó fluttir til vonar og vara í sjúkrabíl til aðhlynningar.
Að sögn lögreglunnar hafði ökumaður sem var að keyra í átt að Reyðarfirði reynt að taka fram úr snjóplóg á veginum og ekki séð bílinn sem nálgaðist á móti. Þá skullu bílarnir tveir saman og annar bíll beygði út af veginum.
Erfið færð var á veginum og keyrðu bílarnir afar hægt, sem gæti hafa leitt til þess að enginn slasaðist alvarlega, segir lögreglan. Alls voru sex manns í bílunum þremur. Búið er að fjarlæga bílana af vettvangi.
Greint var frá því í gær að björgunarsveit þurfti að sækja fjölda fólks úr bílum á Fagradal, þar sem veður var afar slæmt og skyggni lítið á köflum.