Haförninn Lambi, sem merktur var við sunnanverðan Breiðafjörð síðasta sumar, gerðist víðförull eftir að hann yfirgaf æskuóðal sitt í nóvember, samkvæmt gögnum úr leiðarritum sem settir hafa verið á hafarnarunga í hreiðri síðustu ár.
Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að frá árinu 2019 hafi leiðarritar verið settir á arnarunga um allt varpsvæði arnarins í þeim tilgangi að varpa ljósi á búsvæðanotkun og ferðir ungra arna. Lambi var merktur í júlí síðastliðnum, og kom í ljós að fuglinn dvaldi á æskuóðalinu allt fram í nóvemberlok. Þá tók hann sig upp og fór suður yfir Snæfellsnesfjallagarð þar sem hann dvaldi í tvo daga áður en hann en hélt aftur til baka norður yfir.
Þetta ferðalag virðist hafa ýtt undir frekari ævintýraleit því í byrjun desember var Lambi kominn norður í Hrútafjörð, fór þaðan aftur í Hvammsfjörð, yfir í Hrútafjörð og endaði árið í Bitrufirði á Ströndum. Í janúar flaug hann norður allar Strandir, allt að Horni, síðan um Aðalvík og Jökulfirði yfir í Djúp, þar sem hann hefur haldið sig síðan um miðjan janúar.
Sumarið 2022 voru sendar settir á 14 unga. Þrír drápust á æskuóðulum í september og október, þar af er fuglaflensa staðfest dánarorsök tveggja. Sjö ungar eru farnir að heiman; þrír í nóvember, tveir í desember og tveir í janúar, en athygli vekur að fjórir ungar eru ennþá heima við og er það óvenju seint miðað við fyrri ár. Foreldrar þessara fugla fá lítið andrými því það styttist í varptíma hjá örnum. Pörin fara að dytta að hreiðrum sínum í mars og verpa í apríl.