„Aðdragandinn var sá að fyrir næstum ári var Gyrði Elíassyni boðið að koma á hátíðina og beðinn um að vera skáld hátíðarinnar og það var þá fyrst sem við fengum veður af þessari hátíð,“ segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og útgefandi, í samtali við mbl.is en hann var í hópi þriggja íslenskra skálda sem boðið var á ljóðahátíðina Nordisk Poesifestival í Hamar í Noregi um helgina en sú hátíð er til heiðurs norska skáldinu Rolf Jacobsen.
Var Jacobsen uppi árabilið 1907 til 1994 og hátíðin í Hamar haldin í fyrsta sinn þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu hans árið 2007. Var hún haldin annað hvert ár til að byrja með en á hverju ári frá 2011.
„Ástæðan fyrir því að Gyrði var boðið er að tvær ljóðabækur hafa komið út eftir hann í Noregi og sú þriðja var í farvatninu. Hann þiggur þetta boð í fyrra, að vera skáld hátíðarinnar og svo er ég seinna beðinn að koma á hátíðina, ég var svo heppinn að fá ljóðabók útgefna í Noregi á síðasta ári,“ segir Aðalsteinn frá en svo vill til að auk þess að vera skáld er hann útgefandi Gyrðis Elíassonar svo þeir sóttu hátíðina, báðir sem skáld en einnig sem skáld og útgefandi. Þriðji boðsgesturinn frá Íslandi var svo Kristín Svava Tómasdóttir, ljóðskáld og sagnfræðingur, sem einnig er rætt við hér.
Á hátíðinni var haldið málþing um ljóðagerð Gyrðis og flutti Aðalsteinn eðlilega erindi þar. „Ísland var ágætlega kynnt þarna með okkur þrjú þaðan. Hátíðin er norræn og þarna voru mörg skáld frá Noregi og nokkur frá Svíþjóð og Danmörku en við fengum gott pláss af því að við vorum með höfuðskáld hátíðarinnar,“ segir Aðalsteinn frá.
Hátíðin var sett á fimmtudaginn í síðustu viku og stóð málþingið um Gyrði í tvo daga og þar haldin tólf erindi um ljóðagerð hans en annars var dagskráin á ýmsu formi og teygði sig um bæinn Hamar sem rómaður er fyrir náttúrufegurð en hann stendur við vatnið Mjøsa og eru vinsæl útivistarsvæði þar víða um kring.
Á ýmsu gekk að sögn Aðalsteins. „Ég tók þátt í dagskrárlið sem er víst alltaf hluti af hátíðinni og fer fram á LP-plötu-kaffihúsi, þar átti ég að vera með ljóðaupplestur og blanda inn í hann tónlist af plötum og þar var fullt hús, um fimmtíu manns, ég átti nú ekkert von á því en hvert sæti var skipað,“ segir hann frá.
Nýjasta ljóðabók Gyrðis kom svo út á hátíðinni, á norsku, og var fullur salur við þann viðburð einnig að sögn Aðalsteins. Hvaða þýðingu skyldi þetta höfðinglega boð á Rolf Jacobsen-hátíðina hafa fyrir íslensku skáldin að mati Aðalsteins?
„Það skiptir heilmiklu máli sem eftirfylgni og til að viðhalda sýnileika fyrir Gyrði að koma þarna. Bækur hans hafa komið út í Noregi og kastljósinu er beint að honum á þessari hátíð, ég ræddi þarna við útgefendur hans í Noregi sem hafa verið tveir fram til þessa en er nú stefnt að því að sameina í einn. Nú, þetta skiptir líka máli fyrir mig, fyrsta bókin eftir mig í Noregi kom út á síðasta ári, við Gyrðir erum með sama þýðanda í Noregi, hann heitir Oskar Vistdal og fékk einmitt norsku þýðingarverðlaunin fyrir skáldsögu eftir Gyrði fyrir nokkrum árum. Svo sjáum við hvað gerist með Kristínu, þar getur allt gerst, þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og útgefandi, af för þeirra íslensku skáldanna til Noregs.
„Mér var boðið á þessa hátíð fyrir þremur árum en svo var því alltaf frestað vegna Covid svo ég var að fara bara núna fyrst eftir nokkuð langan aðdraganda,“ segir Kristín Svava Tómasdóttir af heimsókn sinni á hátíðina sem hún hafði ekki heyrt um áður.
„Þetta var mjög skemmtilegt, hátíðin rótgróin og alltaf gaman að fara og lesa sjálfur ekki síður en að hlusta á kollega sína,“ segir Kristín frá.
Íslensku gestirnir nutu hins besta beinleika í Hamar en á móti þeim tók engin önnur en Gunhild Kværness, málfræðingur og prófessor þar í bænum og mikill Íslandsvinur sem dvaldist langdvölum á Íslandi á níunda áratug aldarinnar sem leið. Greindi hún mbl.is frá ævintýralegum Íslandsárum í viðtali í febrúar 2021.
„Hún er mjög skemmtileg týpa og gaman að hitta fólk í útlöndum sem hefur tengsl við Ísland og talar svona fína íslensku,“ segir Kristín af gestgjafanum en þannig vildi til að átta manns sátu kvöldverðarboð hjá Kværness um helgina og töluðu allir íslensku þótt aðeins væri helmingurinn Íslendingar.
„Stundum hefur það einhverja praktíska þýðingu,“ svarar Kristín, spurð út í hvaða þýðingu boðið á hátíðina hafi fyrir hana, „maður hittir fólk á svona hátíðum sem maður á svo kannski eftir að hitta aftur eða fara í samstarf við, maður veit það aldrei fyrr en eftir á. Svo hefur það líka þýðingu að hlusta og heyra skáld lesa sem maður hefur ekki heyrt í áður og þarna voru ýmis norræn skáld í yngri kantinum sem ég hafði ekki heyrt í áður,“ segir hún.
Þá hafi það verið skemmtilegt fyrir hana að vera samferða Aðalsteini og Gyrði og hlýða á erindi þeirra. Kristín gaf út bókina Farsótt fyrir jól og er núna „í ýmsu“ eins og hún segir, ekki alveg komin í næsta stóra verkefni.
Þó ljóstrar Kristín því upp að ljóðabók hennar Hetjusögur, sem út kom fyrir hálfu þriðja ári, sé nú að koma út í Bandaríkjunum og það í Texas af öllum ríkjum þarlendum. Blaðamaður hváir.
„Já. Fyrri bókin mín, Stormviðvörun, kom líka út þar. Þetta er dálítið dæmigert fyrir ljóðabransann sem oft hangir á tilviljunum og einhverjum persónulegum tengslum milli skálda og þýðenda og útgefenda. Þarna kynntist ég henni Köru [Kara Billey Thordarson þýðandi, K.T. Billey] sem þýddi Stormviðvörun og er nú líka búin að þýða Hetjusögur, það var hálfgerð tilviljun að henni var bent á mig og við komumst í samband. Svo rataði hún inn í lítið forlag og var gefin þar út. Þetta er bara dæmi um þetta fallega þverþjóðlega samfélag og persónulegu tengsl sem er dálítið dæmigert í ljóðaheiminum og þar eru svona ljóðahátíðir einmitt alveg sérstaklega mikilvægar,“ segir Kristín Svava Tómasdóttir að lokum, íslenskt skáld sem er að koma út í Texas...og það öðru sinni.