Þriðji áfangi Arnarnesvegar hefur nú verið boðinn út og opið verður fyrir skil á tilboðum til 18. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá opinbera hlutafélaginu Betri samgöngum.
Um er að ræða um 1,9 km kafla á Arnarnesvegi, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Í verkinu eru einnig tvenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Framkvæmdin er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Betri samgangna ohf., Veitna og Mílu. Vonir eru um að framkvæmdir geti hafist í sumar og að þeim ljúki 2026.
Yfirlýst markmið framkvæmdanna er að auka umferðaröryggi og jafnframt stytta ferðatíma. Auk þess á nýja akstursleiðin að minnka umferð og stytta viðbragðstíma neyðaraðila.
Framkvæmdunum hefur verið harðlega mótmælt og meðal annars á það bent að stuðst sé við tuttugu ára gamalt umhverfismat.