Kvikmyndaleikstjórinn Hlynur Pálmason segir mynd sína Volaða land eiginlega hafa verið „dauða“ þar til hann fékk þá hugmynd að gera aðalpersónuna að ljósmyndara.
Við upphaf myndarinnar segir að hún byggi á sjö votplötumyndum dansks prests sem hafi fundist í trékassa. Hlynur viðurkennir að það sé ekki satt. „En var satt fyrir mér þegar ég var að vinna í myndinni,“ segir hann. Hann hafi lengi átt erfitt með að finna myndinni réttan farveg.
„Myndin var einhvern veginn bara dauð, hún var svo þung og það var svo mikið verið að tala og það var mikið verið að tala um trú,“ segir hann.
„Ég vissi ekki alveg af hverju ég ætti að gera þessa mynd og var lengi vel að ströggla yfir því hvort ég ætti að vinna áfram með hana. En það var einhver kjarni í myndinni sem var alltaf spennandi og var einhvern veginn að toga í mig.“
„En svo þegar ég fór að hugsa: „En ef hann er með myndavél? En ef hann er að mynda fólkið og landslagið?“, þá fór ég að ímynda mér hvernig þessar myndir myndu líta út og hvernig þetta fólk væri og hvernig aðstæðurnar þegar hann tók myndirnar væru. Þetta allt kveikti á ímyndunaraflinu, handritið fór að verða meira spennandi og þá fór þetta allt af stað.“
Hlynur var viðmælandi Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum og sagði þar frá gerð myndarinnar Volaða land. Þættinn í heild má finna hér að neðan.